Töfrar

Systur voru í miklum pælingum fyrir svefninn, þurftu margt að ræða, spyrja og fá staðfestingu. Það endaði með að Kata skreið upp í til Elísabetar og þar pískruðu þær á meðan við Margrét lágum og veltum fyrir okkur tilverunni.

"Hvenær hættir þú að trúa á jólasveina?" spurði Margrét mig.

Ég sagði henni að tímabundin vantrú mín hefði hafist um tólf ára aldurinn. Af því að þá hefði ég verið að færast á unglingsaldurinn og unglingar héldu oft að það væri til skýring á öllum hlutum og tryðu ekki því sem passaði ekki við það.

Hún vildi vita af hverju ég hefði farið að trúa aftur á jólasveina og ég sagði að ég hefði elst og vitkast, áttað mig á að það hlytu að vera til töfrar. Annað væri einfaldlega ekki hugsanlegt. Eða hvernig ætti annars að skýra lítil börn?

Hún skildi þetta vel. "Ég er einmitt oft að hugsa um að það hljóti að vera til töfrar," sagði hún og svo taldi hún upp allt hið óraunverulega og ótrúlega, sem engar jarðneskar skýringar væru á:

"Ég hugsa oft hvernig jólasveinarnir geta farið til allra barna á einni nótt. Og hvernig jörðin getur verið kúla, en enginn dettur af henni. Og hvernig var í Frakklandi þegar það voru bara apar á Íslandi og engir menn. Og hvernig pláneturnar eru; eru kannski til geimverur? Það er svo margt sem er töfrar."


Bingó!

Ég fór með stelpurnar á bingó í Fossvogsskóla um daginn.

Þær voru dálítið stressaðar. Aðallega Elísabet, sem þráspurði hvort hún yrði að kalla BINGÓ af öllum lífs og sálar kröftum ef hún ynni. Ég gaf henni engan afslátt á það, sagði að ekki yrði tekið mark á þeim sem laumaði einhverju út úr sér svo varla heyrðist.

Þær gleymdu sér fljótt og þótt þær næðu ekki fyrsta vinningi, þá fengu þær smávinninga og voru þá orðnar svo æstar að þær hrópuðu svo heyrðist um allan skóla og út á hlað.

Þetta var skemmtilegt hjá okkur. Nema þegar karlkyns kynnirinn kynnti vinninga. "1. vinningur fyrir stráka er þessi rosaflotti, fjarstýrði bíll. Og fyrir stelpur er..., er.....já, við finnum eitthvað flott fyrir stelpurnar"

ARG!!

Honum tókst að klúðra þessu svona tvisvar í röð, hvorki meira né minna.

Dætur mínar voru afskaplega súrar. Þær vildu í fyrsta lagi eiga kost á fjarstýrðum bíl ef þeim sýndist svo. "Við eigum fjarstýrðan bíl og það er mjög gaman af leika með hann. En stelpur mega líka alveg fá fjarstýrðan bíl hérna ef þær vinna, er það ekki?" spurðu þær og voru yfir sig hneykslaðar.

Verra fannst þeim samt að fá ekki að vita hver hinn aðalvinningurinn væri.

Þetta var eiginlega fyrir neðan allar hellur. Í fyrra skiptið virtust flestir yppa öxlum (ég sagði ekkert, en hugsaði með mér að aumingja ræfils kynnirinn hefði áreiðanlega áttað sig á klúðrinu og væri algjörlega, gjörsamlega miður sín)

Í seinna skiptið fór hins vegar gríðarlegur kurr um salinn, alla vega þann hluta foreldrahópsins sem var með litlar stelpur með sér. Það virtist skila sér upp á svið.

Pirr, pirr og aftur pirr Devil


Vaknaðu, kollur!

Elísabet skreið upp í rúm undir morgun. Þegar við Kata vorum komnar á stjá lá hún enn undir sæng og átti bágt með að vakna.

Kata ýtti við henni og þá heyrðist undan sænginni: "Mamma, eru 7 plús 8 ekki 15?"

Kata sagði að það væri rétt hjá henni. "En af hverju spyrðu að því núna?"

"Æ, ég er bara að reyna að vekja höfuðið mitt" svaraði krílið.

Og hvað er betra til að vekja höfuðið en dálítil stærðfræði í morgunsárið?


Föndur

Svei mér þá alla mína daga! Ég gleymi helsta afreki helgarinnar!

Á laugardaginn var nefnilega föndurdagur í Fossvogsskóla. Kata þurfti að vinna, svo ég fór með systrum í föndur.

Ég.

Í föndur.

Til allrar hamingju eru blessuð börnin orðin sjálfbjarga í þessu sem svo mörgu öðru. Ég borgaði bara fyrir hvítar leirstyttur og svo máluðu þær af hjartans lyst.

Þar slapp ég billega.


Jólaljós og -kökur

Við mæðgur vorum allar mættar í Eymundsson í Austurstræti klukkan 1 á laugardag. Kaffi, smákökur, upplestur undirritaðrar o.s.frv., til að kynna bókina um Wati.

Fjölskylda Wati mætti á staðinn, Díana systir hennar og Sigurgeir með Klöru, Amöndu og Irmu litlu. Svo kom Fikri bróðir hennar og Maricel kona hans og fullt af öðrum vinum og ættingjum. Mér þótti afskaplega vænt um að sjá þau öll. Þau eru svo ánægð með bókina og það skiptir mig miklu máli.

Við mæðgur fórum heim og hófumst handa við að skreyta húsið. Núna er blessaður upplýsti jólasveinninn kominn við útidyrnar, þar sem hann klifrar endalaust upp og niður kaðal. Kofi stelpnanna í garðinum er skreyttur bláum ljósum og serían komin á svalirnar. Svo er allt að fyllast af jólapunti hér innanhúss líka.

Á laugardagskvöld var jólafagnaður starfsmannafélags Moggans í Iðusölum við Lækjargötu. Það var alveg stórskemmtilegt. Við fengum þennan líka fína mat (því það er sko EKKI sama hvernig jólahlaðborð eru), og svo var dansað fram á nótt. Og ég líka, svei mér þá! Það tóku sig upp alls konar gömul og gleymd spor hjá okkur Kötu, en það fór nú reyndar pínulítið um mig þegar ég áttaði mig á að ég var farin að hlykkjast um húsið í konga-röð. En þetta var bara svo ansi skemmtilegt kvöld! En heim komnar um eittleyti samt, kellurnar.

Sunnudagur var áframhaldandi jólapúsl. Margrét og Tara þáðu boð Stebba stórtöffara í bíó, en Elísabet kaus að vera heima við. Hún skrapp til Mörtu Maríu, en kom svo heim og dúllaðist í baði og alls konar dekri þar til systir skilaði sér heim úr bíói. Þá drifum við okkur niður á Austurvöll og sáum þegar kveikt var á ljósunum á jólatrénu. Þaðan beint í afmæli hjá Daníel frænda og svo heim.

Í morgun var ég á leið í vinnuna þegar síminn minn hringdi og óskaplega lítil og mjó rödd tilkynnti um höfuðverk og magapínu. Ég sneri við og sótti Elísabetu í skólann og var heima með henni til hádegis. Kata tók þá við og Elísabet var nú ekki veikari en svo að hún naut veikindanna til fulls. Ekki síst seinni partinn, þegar Margrét var komin heim úr fótboltanum og við bökuðum piparkökur og máluðum þær. Á morgun fara þær með snjókarla, jólatré, stjörnur og hreindýr í nesti.


Lillý er ekki Lillý

Ég fékk símtal frá konu í morgun, sem var gjörsamlega miður sín af því að hún hélt sig koma við sögu í bókinni um Wati.

Þannig er mál með vexti, að í bókinni er sagt frá nágrannakonu Wati á ÖLDUGÖTU. Sú var kölluð Lillý, en það er bara gælunafn hennar og rétta nafn hennar er alls ólíkt því.

DV birti stuttan útdrátt úr bókinni og dró þar frásögnina saman í þennan kafla: "Sri Rahmawati yfirgaf loks Hákon og við tók hatrömm forræðisdeila þeirra á milli. Hún hafði gefist upp á barsmíðunum. Við tóku hótanir og frekari líkamsárásir sem enduðu loks fyrir dómstólum árið 2004. Hákon var sýknaðar þrátt fyrir staðfastan og trúverðugan framburði Sri. Lykilvitni í málinu, sem er í bókinni aðeins nefnd Lillý, skipti um skoðun þegar í dómsal var komið og „mundi ekki voðalega mikið eftir þessu“. Sri fannst hún svikin af nágranna sínum og vinkonu."

Konan sem hringdi í mig í morgun heitir í raun og veru Lillý og var nágrannakona Wati í JÓRUFELLI, ári eftir árásina á Öldugötu (þar sem VITNIÐ Lillý bjó).

Þessi kona, Lillý hin síðari, hefur orðið fyrir óþægindum af því að fólk heldur að tilvísunin í bókinni eigi við hana. Hér með er sá misskilningur leiðréttur. Lillý nágrannakona Wati í Jórufelli bar aldrei vitni í nokkru máli og tengist bókinni alls ekki neitt.


Allir verða að eiga vin

Jenný kvartar undan skorti á barnafærslum. Og það réttilega, enda hefur þetta blogg meira eða minna verið helgað systrunum síkátu.

Þær leggja svosem endalaust til efni, þótt ritari nenni ekki alltaf að skrifa. Rétt í þessu vorum við að koma af skólakvöldi, þar sem krakkarnir sýndu okkur Vinabæinn sem þau höfðu búið til, með fólki og dýrum, húsum og bílum. Greinilega heilmikil vinna að baki. Þau lásu líka fyrir okkur alls konar fróðleik um menn og dýr og sungu mörg fín lög. Og meira að segja tvisvar "Allir verð'að eiga vin"

Systur stóðu sig auðvitað óaðfinnanlega. Það var samhljóma mat mæðra.

Þær höfðu aðeins áhyggjur af einu áður en við lögðum af stað í skólann. Foreldrar höfðu nefnilega verið beðnir að leggja veitingar í púkk.

Margrét hringdi í mig í vinnuna rúmlega fjögur, var þá komin til Töru eftir fótboltaæfingu og spurði hvort við værum með eitthvað gott.

Ég sagði henni að við værum með fullan poka af gómsætum vínberjum.

"Vínber?" spurði hún og leyndi ekki hneyksluninni.

Ég minnti hana á að hún væri einhver mesta vínberjaæta norðan Alpafjalla.

"Já, en síðast fórum við með ávaxta-broddgölt" (sællar minningar, við vorum hálfan daginn að negla vínberja-, jarðarberja- og ostapinna í hálfa melónu)

Enginn tími í broddgölt í dag, en það sagði ég henni auðvitað ekki, heldur sannfærði hana um að betri vínber væru vandfundin. Hún tók samt ekki gleði sína fyrr en hún komst að því að ég hefði líka keypt einhverjar Svala-fernur.

Foreldrar tóku greinilega misvel í tilmæli um að koma með eitthvað hollt og gott. Margir komu með gott. Aðrir hollt. En allt hvarf ofan í sjö ára snillingana.

Þeim tókst að sannfæra Kötu um nauðsyn þess að föndra aðeins þegar við komum heim. Þá forðaði ég mér að tölvunni.

Ég vil ekki skemma fyrir handlagna hluta familíunnar.


Bókarkaflar

Í Mogganum á sunnudag var sagt frá útgáfu bókarinnar um Wati og birtir þrír stuttir kaflar.

Hérna er sú umfjöllun:

Bókin Velkomin til Íslands - sagan af Sri Rahmawati eftir Ragnhildi Sverrisdóttur blaðamann segir sögu indónesískrar konu, sem flutti til Íslands til að búa sér og börnum sínum betra líf. Börnin tvö urðu eftir hjá ættingjum í Indónesíu á meðan mamma þeirra kom undir sig fótunum í framandi landi, en fluttu síðar til hennar.

Hér á landi kynntist Sri Rahmawati íslenskum manni, Hákoni Eydal, og eignaðist með honum dóttur. Samband þeirra einkenndist af ofbeldi Hákonar í garð Wati, eins og hún var alltaf kölluð.

Tæpum tveimur árum eftir fæðingu litlu dótturinnar hvarf Wati eftir heimsókn til Hákonar. Mánuði síðar játaði hann loks að hafa orðið henni að bana og vísaði lögreglu á hraungjótuna þar sem hann hafði falið hana.

Hér á eftir fara kaflar úr bókinni.

 

„Ekki treysta honum“

Danni og Amanda komu hingað í júlí 2002, rétt áður en Wati eignaðist Irmu litlu. Wati hafði svo lengi dreymt um að fá börnin sín tvö til Íslands. Þegar hún og Hákon voru nýbyrjuð saman sagði hún Maricel vinkonu sinni að hann ætlaði að hjálpa henni að fá þau heim.

Hún var svo glöð, af því að nú var hún viss um að börnin kæmu hingað fljótt og allt yrði í lagi. Því hann hafði lofað að hann myndi hjálpa henni.

Wati vann ötullega að því að fá öll tilskilin leyfi, vegabréf fyrir börnin og alla þá pappíra sem til þurfti. Að ekki sé minnst á alla vinnuna sem hún lagði í húsið þar sem þau ætluðu að búa.

Vorið 2002 sagði Hákon skyndilega að hann kærði sig ekkert um að fá börnin, nú ættu þau von á barni saman og hefðu ekkert með tvö til viðbótar að gera.

„Þá geri ég það bara ein,“ sagði Wati, sem sárnaði mjög við hann.

Hún gat unnið og fengið börnin sín til Íslands, hún þurfti ekki á honum að halda. Börnin hennar voru líka orðin svo stór núna, að þau myndu hjálpa henni. En alltaf lifði hún í voninni um að Hákon yrði hluti af fjölskyldunni.

Hamingjusamri fjölskyldu.

Svo komu börnin hennar tvö til Íslands. Þau Hákon voru saman um það leyti, eða kannski voru þau þá rétt að skilja? Eða nýbyrjuð saman á ný? Það var erfitt að henda reiður á því, enda var Wati farin að fela stöðu mála fyrir sínum nánustu. Hún vissi að fjölskylda hennar óskaði þess heitast að Hákon héldi sig sem lengst í burt. En hann var þarna enn, stundum inni á heimilinu, stundum ekki. Stundum góði stjúpinn, stundum fjarlægur og skipti sér ekki af neinu, nema þá til að rífast og skammast.

„Ekki treysta honum,“ bað Maricel enn einu sinni. Hún benti vinkonu sinni á að Hákon hefði margoft hótað henni lífláti. Þegar þarna var komið sögu var hætt að skipta máli hvort hann var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, hann gat verið jafn illur viðureignar hvort heldur var. Það skipti engu hvort hann var fullur eða edrú, hann hótaði að drepa hana eins og það væri ekkert mál að segja við barnsmóður sína að hann óskaði henni dauða.

Hann hikaði heldur ekki við að segja þetta við aðra. Eins og Maricel. Hún varð óttaslegin, en eins og venjulega virtist ekkert bíta á Wati.

„Hann segir þetta bara,“ sagði Wati og hélt áfram að hitta hann.

„Hann gæti gert alvöru úr því, hann er ekki góður við þig,“ sagði Maricel og bað hana einu sinni enn.

Wati bjó í litlu íbúðinni á Öldugötu og nú voru eldri börnin hennar tvö komin til landsins. Krakkarnir sem hann sagðist oftast hvorki vilja heyra né sjá. Þó kom hann enn oft til hennar á Öldugötuna og var með blíðuhót og hún vonaði í lengstu lög að þau myndu flytja öll saman inn í nýja húsið. En á milli var hann hinn versti og hélt því oft fram að hann ætti alls ekki barnið sem hún gekk með. Og hann sagði henni upp úr þurru að það yrði ekkert af því að þau flyttu í Seljahverfið, hann væri búinn að selja húsið.

Það virtist fokið í öll skjól. En þá virtist hann enn á ný snúa við blaðinu og varð allt í einu hinn alúðlegasti við börnin hennar. Hann gaf þeim X-Box leikjatölvu og þau voru alsæl með þennan stjúpa sem var þeim svo góður. Þau þökkuðu honum vel fyrir og nutu þess að eiga svona fína tölvu. Slíkan dýrgrip höfðu þau aldrei eignast áður.

Nokkrum dögum síðar sinnaðist þeim enn á ný, Hákoni og Wati. Hann reiddist mjög og til að ná fram hefndum tók hann tölvuna af börnunum hennar.

Þau skildu þetta ekki, sögðu við ættingja sína æ ofan í æ að þau hefðu þakkað mjög vel fyrir sig. Hann hefði gefið þeim tölvuna, þau þakkað margsinnis, en nú hefði hann tekið hana aftur. Slík framkoma var algjörlega ofar skilningi þeirra.

Wati sárnaði þetta líka mjög. Hún hafði enn einu sinni gert sér vonir um að þau gætu öll orðið ein, hamingjusöm fjölskylda. Börnin hennar, sem hún hafði neyðst til að láta frá sér í fimm ár, voru hnípin og döpur.

 

Deilt um forræði

Hákon var ekki af baki dottinn. Beiðnin til sýslumanns var dagsett 11. júní 2003, einum degi eftir að Wati kærði hann fyrir að ráðast á sig á Öldugötunni. Hún var enn marin í andliti þegar bréfið um þetta barst frá sýslumanni og hún vinsamlega beðin um að koma á skrifstofu embættisins við Skógarhlíð.

[ . . .]

Svo var hann sýknaður með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í febrúar 2004. Í apríl sama ár var loks gengið frá samningi um umgengnisrétt hans við Irmu. Samningurinn sneið honum mjög þröngan stakk. Umgengnin átti að fara fram aðra hverja helgi í alls sex skipti, eina klukkustund í senn, undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur í húsnæði Barnaverndar. Wati átti að sjá um að koma Irmu á staðinn og sækja hana eftir fund Hákonar við dóttur sína. Eftir þessi sex skipti átti að endurmeta samninginn með tilliti til þess hvernig umgengni hefði gengið.

Í samningnum var nákvæmlega tilgreint hvaða sex daga Hákon fengi að hitta Irmu og klukkan hvað. Fyrsta skipti var sunnudaginn 2. maí kl. 17-18, svo á tveggja vikna fresti fram á sumarið.

Síðasta skipti, sem samningurinn sagði að Hákon mætti hitta Irmu litlu, var laugardaginn 10. júlí 2004 klukkan 14-16.

Þann dag hafði Wati verið saknað í tæpa viku og Hákon sat í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa ráðið henni bana.

 

Maðurinn með pokann

Ásbjörg gekk lítinn hring um hverfið og átti skammt eftir að heimili sínu að Stórholti 12 þegar hún tók eftir að nágranni hennar kom úr út íbúð sinni á 1. hæð hússins númer 19. Nágranninn, sem klæddur var í gallabuxur og hvítan stuttermabol, burðaðist með stóran gulbrúnleitan poka í fanginu út að grænum og brúnum Nissan-jeppa, sem stóð í heimreiðinni. Það glampaði á pokann, svo ekki var þetta venjulegur strigapoki, en hann líktist heldur ekki plastpoka.

Hvað var hann með í pokanum? hugsaði hún andartak en hugurinn festist þó ekki að ráði við þessa spurningu.

Ásbjörg var rétt utan við garð nágrannans, en gekk nú yfir götuna í átt að húsinu sínu. Hundurinn var ekki búinn að fá nóg af útiverunni og fékk skyndilegan áhuga á næsta ljósastaur. Að þessu sinni þurfti hann mikið að þefa og merkja sér staðinn rækilega. Ásbjörg beið eftir hundinum og varð litið um öxl í átt að manninum með þungu byrðina.

Hún sá strák koma röltandi niður götuna, með farsíma við eyrað. Strákurinn var upptekinn af símtalinu og hægði á sér, þar til hann stóð kyrr fyrir framan garðinn við húsið númer 19.

Og þá brá svo við að nágranninn með þungu byrðina lagði pokann frá sér í grasið og lét há trén við gangstéttina skýla sér.

Hann var augljóslega að fela sig fyrir stráknum. Hvers vegna?

Strákurinn með símann leit aldrei við og hafði því ekki hugmynd um að skammt frá honum stóð maðurinn yfir byrði sinni. Og líklega hefur þessi strákur ekki enn hugmynd um hlutverk sitt í þessu máli.

Hann lauk símtalinu, gekk áfram og hvarf úr augsýn. Maðurinn í garðinum beygði sig niður, lyfti byrði sinni upp og reisti sig við. Á pokanum voru brúnleitir blettir, sá Ásbjörg. Þegar hann leit upp horfði hann skyndilega beint í augu Ásbjargar. Og setti svo pokann frá sér inn í opna farangursgeymslu jeppans.

Þá sá hún hvað var í pokanum.

En hún trúði ekki sínum eigin augum, heldur reyndi að telja sjálfri sér trú um að þetta væri eitthvað annað. Kannski stórt dýr? Eða gamalt dót úr geymslunni? Eitthvað sem var bara svona undarlegt í laginu.

Því það gat ekki, það mátti ekki vera það sem hún taldi sig þó sjá.

Læri og fótlegg af manneskju.


Bókin um Sri Rahmawati

Bókin mín er að renna úr prentsmiðjunni og verður vonandi komin í verslanir um helgina.

Hún heitir "Velkomin til Íslands - sagan af Sri Rahmawati" og segir sögu þessarar ungu konu frá Indónesíu, sem flutti hingað 1997 til að búa sér og börnum sínum betra líf. Fjölskylda Wati, eins og hún var alltaf kölluð, og vinir hjálpuðu mér að púsla saman mynd af lífi hennar, frá því að hún var lítil stelpa í Indónesíu og allt þar til hún var svipt lífi í Reykjavík í júlí 2004.

Mér fannst mjög áhugavert að skrifa söguna. Fyrst hafði ég í huga að skrifa bara um sakamálið sjálft, enda var það óvenjulegt. Morðinginn neitaði öllu, þótt óhrekjandi sönnunargögn hrönnuðust upp og vísaði ekki á staðinn þar sem hann hafði falið Wati fyrr en mánuði eftir ódæðið.

Þótt málið væri mjög umtalað á sínum tíma var forsagan aldrei sögð. Í dómum stendur um alla tíð allt það ljóta sem morðinginn sagði um hana, allar lygarnar og ásakanirnar. Það var kominn tími til að segja hennar hlið.

Eftir að ég kynntist fjölskyldu Wati breyttist bókin mjög. Þá gat ég skrifað um systurina, mágkonuna, vinkonuna og móðurina Sri Rahmawati.

Wati á yndislega og samheldna fjölskyldu. Díana systir hennar og hennar maður, Sigurgeir, tóku börnin hennar þrjú að sér og þá var nú fjölskyldan orðin myndarleg, því þau áttu þrjú börn fyrir. Yndislegt, heiðarlegt og vinnusamt fólk, sem leggur mikið á sig til að hlúa að fjölskyldunni.

Wati gerði það líka, en var svo tekin frá börnunum sínum á hrottalegan hátt. 

wati


Hvað er að sjá blessað barnið með gleraugu?

Elísabet hefur kvartað undan þreytu í augunum að undanförnu. Hún hefur líka átt erfitt með að einbeita sér þegar hún er þreytt. Sem dæmi má nefna að hún er fluglæs fyrri hluta dags, en nánast ólæs eftir kvöldmat InLove

Hún fór til augnlæknis í gær og  þá kom í ljós að hún er dálítið fjarsýn.

Við brunuðum að velja gleraugun. Sem gekk ótrúlega hratt og vel. Hún skoðaði þau bleiku og þau fjólubláu, en endaði í flottum og stílhreinum gleraugun með gylltri umgjörð. Alsæl og svo spennt, að hún ætlaði ekki að geta sofnað í gærkvöldi. Í dag verða gleraugun nefnilega tilbúin.

Í morgun þóttist Kata ekkert muna eftir hvað ætti að gerast í dag. "Ég fæ ný gleraugu," sagði Elísabet. Kata lét einhver orð falla um hversu spennt dóttirin væri, en Elísabet svaraði um leið: "þú værir líka spennt ef þú værir barn og ættir að fá ný gleraugu!"

Sem er áreiðanlega hárétt.

Það er skammt stórra högga á milli. Elísabet að fá gleraugu og Margrét þurfti til tannlæknis í dag. Guðrún tannlæknir var búin að greina einhvern skugga á tönn og vildi laga áður en færi í óefni.

Margrét var hin rólegasta, fékk létta deifingu og öllu var lokið áður en Kata, sem beið frammi á biðstofu, vissi af. Þegar Margrét kom fram frá tannlækninum laumaðist hún meðfram veggjum,  óttalega feimin. Kata spurði hana af hverju hún laumaðist svona um og þá kom í ljós að hún hafði svo sérkennilega tilfinningu í munninum eftir deifinguna að hún var sannfærð um að hún liti stórundarlega út.

"Ég laumaðist bara af því að ég hélt að fólk myndi segja: Hvað er að sjá blessað barnið?" sagði hún og var létt þegar hún skoðaði sig vel í spegli og sá að útlitið var eðlilegt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 786153

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband