Afturábak

Á sunnudagsmorgni í sumarbústað lá ég uppi á svefnlofti og systurnar báðar vaknaðar. Við vorum að reyna að hafa hljótt, svo kerlingarnar á neðri hæðinni vöknuðu ekki strax.

Elísabet lá á maganum í rúminu og horfði út á ísi lagt Skorradalsvatn. Og fór svo að lýsa líðan sinni. Henni var heitt í hjartanu, sagði hún. "Mér finnst svo gott að horfa svona út. Þá man ég alltaf svo margt. Núna man ég þrjár gamlar og góðar minningar."

Áður en hún gat rakið þær minningar hnussaði í systur hennar, sem enn var á bólakafi undir sæng: "Þú ert svo nútímaleg, Elísabet!"

Ég spurði hana hvað hún meinti, hvort hún hefði kannski ætlað að segja "fullorðinsleg."

"Nei," svaraði Margrét. "Nútímaleg. En ég meinti það afturábak. Svona kaldhæðni."

Sem sagt öfugmæli.

Svo hló hún eins og hýena. Og hinni heithjarta systur hennar fannst þetta líka óborganlega fyndið.


Sveinarnir þeir

Giljagaur hafði komið skilaboðunum áleiðis til Stúfs, svo Stúfur fann systurnar í sumarbústaðnum hjá Addý og Báru í Skorradal um helgina. Hann laumaði að þeim mjúkum sokkum, sem komu sér vel í sveitinni.

Við fórum og heimsóttum geitabónda í Borgarfirði og systur voru alsælar að skoða geitur, hitta hundana Neró og Bossa, köttinn og kindurnar.

Skorradalsvatn var ísi lagt, en á sunnudag var ekki ráðlegt að fara út á ísinn. Hann var alveg glær og sást niður á botninn. Systur fóru aðeins út á hann, bara í flæðarmálinu og fannst það mikil upplifun.

"Sjáið mig, ég flýg," sagði Elísabet og fannst greinilega eins og hún svifi í lausu lofti.

Margrét mændi á steinana í botninum í gegnum glæran ísinn. Svo stikaði hún áfram yfir ísinn: "Ég er að ganga á vatninu. Ég er eins og Jesús!"

Jájá, það munar ekkert um samlíkingarnar á þessum bæ Wink

Stúfur kom skilaboðum áfram til Þvörusleikis, sem fann upp á þeim ósköpum að gefa þeim langar blöðrur til að búa til blöðrudýr. Elísabet var fyrst á fætur og mér fannst óskaplega hentugt að vakna upp við blöðrudýragerð, jafn laghent og ég nú er.

Ég bind miklar vonir vivð næsta jólasvein. Er það ekki Pottaskefill, eða einhver slík týpa með einfaldan smekk?

 


Giljagaur

Systur vöktu okkur klukkan 3.40 í nótt. Önnur hafði vaknað, vakið hina og báðar rölt fram að kíkja á veggklukkuna. Þær áttuðu sig á að enn væri mið nótt og vöktu okkur til að segja okkur tíðindin.

Ég skjögraði á eftir þeim yfir í þeirra herbergi og þær voru fljótar að hola sér niður í rúm.

Klukkan hálf átta vorum við aftur vaktar. Báðar systur glaðvaknaðar og skildu ekkert í þessari haugaleti mæðranna á laugardagsmorgni.

Margrét sagði að þær hefðu vaknað fyrir löngu, löngu: "Sko, ég vaknaði og spurði svo Elísabet ertu sofandi og hún sagði nei og svo sagði hún Má ég koma upp í til þín og þá sagði ég og svo erum við búnar að kúra lengi, lengi og bíða og bíða en núna er klukkan alveg að verða 8."

Reyndar hálf átta, en hálftími skiptir engu.

Við héldum þeim hjá okkur í knúsi í hálftíma, en svo urðu þær að kíkja í skóinn. Giljagaur gaf þeim litlar gifs-styttur til að mála og hengja á jólatréð. Alsælar með það.

Þær höfðu skrifað bréf til sveinka. Hann hafði nú ekki fyrir að svara þeim, en hins vegar var bréfið allt útkámað með sótsvörtum fingraförum eftir karlinn. Spæjarasystur sögðu þetta sanna að hann hefði lesið bréfið og voru hinar ánægðustu.

Við Kata vorum lukkulegar að sveinki gekk snyrtilega um að öðru leyti.


Stekkjarstaur

Systur fuku inn úr dyrunum rúmlega 7 í gær, búnar að vera í heimsókn hjá bekkjarbróður.

Við borðuðum kvöldmat og svo dreif Kata í að baka súkkulaðibitasmákökur. Elísabet tók virkan þátt í undirbúningnum, en Margrét settist með Andrés-blað upp í stofu. Svo fór  henni að leiðast þófið, kom fram í eldhús og tilkynnti að hún ætlaði að fara að sofa.

Ég spurði hana hvort hún ætlaði ekki að smakka á kökum fyrst?

Nei, best að fara að sofa strax, sagði hún. En ekki af því að hún væri svona þreytt, það væri bara mjög mikilvægt að fara í háttinn.

Þegar ég hélt áfram að sannfæra hana um að hún mætti vaka aðeins lengur, enda klukkan rétt 8, stundi hún og sagði: "Allt í lagi. En það er þá þér að kenna ef ég fæ kartöflu í skóinn!"

Þá fórum við yfir reglurnar. Ef börn fara ekki í háttinn þegar þau eiga að fara í háttinn, þá eiga þau á hættu að fá kartöflu. En ef þau mega vaka lengur, þá er allt í sóma.

Hún róaðist við þetta.

Um leið og fyrsta platan kom úr ofninum tókum við tvær kökur frá og settum á disk fyrir sveinka. Systur voru búnar að breiða handklæði á gólfið við arininn, enda voru sveinarnir stundum svo hroðalega sóðalegir í fyrra, helltu mjólk út á gólf og skildu eftir sig slóð af kökumolum. Við Kata vorum sko ekki lukkulega að þurfa að þrífa þau ósköp upp.

Við lofuðum að setja kalda mjólk í glas áður en við færum að sofa. Systur sofnuðu um leið og þær lögðust út af.

Í morgun vakti Margrét okkur klukkan hálf sjö. Mjög spennt.

Stekkjarstaur hafði klárað kökurnar og næstum lokið við mjólkina úr glasinu, en auðvitað velt því á hliðina.

Hann skildi eftir sniðugt dót, tvo kubba sem þær þurfa að grafa sig inn í með þar tilgerðum tækjum. Inni í kubbunum leynist eitthvað forvitnilegt fyrir litla náttúrufræðinga. Kannski risaeðlur?

Það er líklega að koma í ljós núna, þær eru að skafa og bursta hjá afa og ömmu.


Víti

Systur eru ákaflega uppteknar þessa dagana. Á morgun er lokatími í dansi í World Class og foreldrar mega sjá árangurinn. Systur og Tara hafa að vísu bara mætt í örfáa tíma, eftir að þær gáfust endanlega upp á fimleikunum. Þar voru þær að gera nákvæmlega sömu æfingar og á haustönninni í fyrra. Þótt þær hefðu verið farnar að fara handahlaup og gera alls konar skemmtilegheit á vorönninni, þá var bara byrjað á núllpunkti aftur í haust. Við gerðum athugasemdir, en þær báru alls engan árangur. Stelpurnar voru að vonum leiðar og svekktar og við fluttum þær í dansinn. Þar eru þær alsælar og ætla að halda áfram eftir áramót. En sýningin verður  á morgun og þær eru auðvitað spenntar Wink

Eftir fótbolta í dag sótti ég þær þrjár, systur og Töru og fór með á Moggann. Þar var tekið viðtal við þær fyrir Barnablaðið, um þátttöku þeirra í Söngvaborg. Mér skilst að þær hafi lýst afskaplega mikilli ánægju með allt saman í viðtalinu og þegar þær voru spurðar hvort ekkert hefði verið erfitt svaraði Margrét: "Jú, mamma fann ekki staðinn þar sem upptökurnar voru!" Sem er hárrétt, ég hringsólaði dálítið áður en ég rambaði á réttan stað. Mér finnst nú ansi hart að fá það framan í mig löngu seinna. En auðvitað eru það góðar fréttir ef þetta er það sem hvílir þyngst á blessuðum börnunum LoL

Á laugardag er stíft prógramm. Þá er jólamót í fótbolta og það stangast á við alls konar hluti aðra. Verst er, að Unnur bekkjarsystir þeirra ætlaði að halda upp á afmælið sitt þann dag, en svo kom í ljós að fimm stelpur í bekknum, af átta,  eru skráðar á fótboltamótið og þar með var afmælið flutt. Rétt áðan fékk ég póst og núna er tímasetningin á fótboltamótinu önnur en var, sem þýðir að afmælið var flutt að ástæðulausu og systur er leiðar, því þær komast ekki í "pæjuafmælið" þar sem þemað átti að vera Hanna Montana, einhver amerísk ofurskvísa sem þær kunna skil á og ekki ég.

En við ætlum líka á jólamarkað á laugardag og höggva jólatré og allt þetta eftir að þær fara í síðasta gítartímann fyrir jól. Það er því meira en nóg að gera hjá krúttum. Og mæðrum.

Áður en þær fóru að sofa sátu þær við hvítu töfluna sína og Kata útskýrði með tússteikningum hvers vegna dæmt væri víti í fótbolta og hvers vegna aukaspyrna. Þarna var völlur með miðju, mörkum og vítateig, annað liðið, eða punktahrúgan,  lá í vörn og hitt sótti stanslaust. Svo þurfti líka að fara yfir hornspyrnur. Ég spurði hvort ekki þyrfti líka að útskýra rangstöðu, en Kata horfði á mig eins og ég væri eitthvað verri. Líklega er rangstaða ekki alveg málið í 7. flokki. Ég var nú bara að reyna að vera með í þessu fótboltatali öllu saman.

Systur þurftu auðvitað að fá að fara rækilega yfir eigin skilning á fótbolta, með tilheyrandi tússteikningum. Þar voru sett upp ákaflega flókin spilakerfi og taflan fyrir rest orðin eins og litrík jólaskreyting.

Þetta verður hið fjörugasta fótboltamót.

Áfram Víkingur!


Persónugjörningurinn

Pistill í Mbl. 10. desember

Við megum ekki „persónugera“ vandann.

Þetta er viðkvæði margra í hvert sinn sem einhver vekur máls á því að tímabært sé að stjórnmálamaður eða embættismaður axli ábyrgð á því hvernig málum er komið hér á landi. Við megum ekki „persónugera“ vandann. Sem virðist þýða að við megum ekki vera vond við einstakling, sem er áreiðanlega góður inn við beinið og gerir sitt besta þrátt fyrir allt. Og svo geta flestir Íslendingar rakið ættir sínar saman í ættfræðigrunni, svo persónulegur vandi eins verður allt í einu vandi allra.

Forsætisráðherra sagði að ekki mætti „persónugera“ vandann með því að benda á seðlabankastjóra.

Fyrrverandi bankastjóri Landsbankans sagði hamfarirnar á fjármálamarkaðinum miklu stærra mál en svo að þær snerust um einhverja einstaklinga hér á landi og ekki rétt að „persónugera“ málin, „því það réð enginn við þetta þegar það var farið af stað“.

Aðrir hafa sagt að ósanngjarnt sé að benda á ákveðna ráðherra, forstöðumenn eftirlitsstofnana, stjórnendur fjármálafyrirtækja eða útrásarvíkinga. Það er nefnilega ekki við neina einstaklinga að sakast.

Í öðrum löndum er fólki gjarnt að líta svo á, að þeir beri ábyrgð sem hafa verið kjörnir eða sitja í embætti hverju sinni, jafnvel þótt öllum sé ljóst að það sem úrskeiðis fór sé ekki þeim „að kenna“. Ekki persónulega. Í þeim tilvikum er fólk alls ekki að „persónugera“ vandann, heldur einfaldlega varpa ábyrgðinni þangað sem hún á heima, á þá sem hafa verið kjörnir til að axla hana, eða sitja í opinberum embættum.

Af þessum ástæðum segir dómsmálaráðherra í Belgíu af sér þegar fangi sleppur úr haldi. Samt er það ekki honum að kenna, en kerfið sem hann stýrir er ekki nógu gott.

Af þessum ástæðum segir yfirmaður breska ríkisútvarpsins BBC af sér þegar rangt er eftir manni haft í frétt, með hörmulegum afleiðingum. Það er samt ekki honum að kenna, persónulega. Vinnubrögð undirmanna voru bara ekki nógu góð.

Stundum er ábyrgðin augljósari. Skrökvi ráðherrar að löggjafarsamkundum í útlöndum þurfa þeir að fara. Noti þeir orðalag, á borð við að segja að ESB sé líkast Þriðja ríki nasismans, verða þeir að stíga úr stóli.

Það skiptir engu máli hvað þessir ráðherrar og embættismenn heita. Í lýðræðislegu þjóðfélagi geta stjórnmálamenn og embættismenn ekki brugðist trausti almennings án þess að þurfa að taka afleiðingunum. Það skiptir engu máli hvað þeir heita. Það er nefnilega óþarfi að „persónugera“ vandann, heldur alveg nóg að líta til ábyrgðarinnar sem starfanum fylgir. Klúðrist málin í meðförum stjórnmálamannsins eða embættismannsins er það eitt næg ástæða afsagnar.

Alla vega í öðrum löndum.

Hérna má ekki „persónugera“ vandann.


Lúnar

Systur voru lúnar í kvöld, enda langur dagur að baki. Skóli, frístundaheimili, dans og svo heim til Töru.

Ég hringi til Töru upp úr kl. 6 og bað um að systur yrðu sendar heim.

Stuttu síðar hringdi síminn. Það var Elísabet í samningaham. "Við megum alveg borða hjá Jóni Otta (Törupabba). Megum við það?"

Kata samþykkti að þær mættu þiggja það góða boð, en yrðu að vera komnar heim fyrir klukkan hálf átta.

Korter yfir sjö hringdi síminn aftur. Elísabet taldi af og frá að þær yrðu tilbúnar til brottfarar klukkan hálf átta. Og tókst að kría út korter í viðbót hjá Kötu. Hún hafði hins vegar áhyggjur af að það væri orðið svo dimmt úti að þær myndu varla rata einar heim.

Af gefnu tilefni skal bent á að Tara á heima á númer 5 en við á númer 8.

Korter í 8 gekk ég yfir að sækja litlu dekurrófurnar, en Kata hin eftirláta skrapp aðeins í vinnuna, enda hafði hún þá hengslast heima í næstum tvo tíma samfleytt og slíkt er auðvitað ótækt.

Systur stungu sér beint í heitt bað við heimkomuna og svo urðum við að lesa aðeins í nýjasta Andrésblaðinu. Þá voru þær orðnar svo þreyttar að þær hreyfðu engum mótmælum þótt ég potaði þeim í rúm og skikkaði þær til að fara strax að sofa.

Þær hrutu í kór þegar Kata skilaði sér heim úr vinnu.

Ég veit að þær fóru í Þjóðminjasafnið með skólanum í morgun, en verð bara að bíða eftir þeirri ferðasögu.


Svefngengill

Systur voru sofnaðar í gærkvöldi og við Kata að horfa á sjónvarpið þegar við heyrðum allt í einu umgang niðri. Eitthvað var fært til og svo datt eitthvað um koll.

Hljóðin komu frá herbergi systranna. Þar stóð Elísabet við skrifborðið í miðju herbergi og tróð sænginni sinni vandlega upp að vegg.

Ég leiddi hana að rúminu og Kata svipaðist um eftir koddanum hennar, sem var horfinn. Hann var hinu megin í herberginu, á milli náttborðs Margrétar og rúmsins hennar.

Við héldum að þetta bauk á steinsofandi barninu væri úr sögunni. En korteri síðar heyrðist að hún var komin aftur á stjá. Sængin komin út á gólf og hún líka, ráðvillt á miðju gólfi.

Aftur var hún leidd í rúm.

Núna liðu aðeins tíu mínútur. Þá heyrðist fótatak í tröppum og kollurinn birtist úfinn á skörinni.

Kata játaði sig sigraða og þær mæðgur fóru að sofa í stóra rúminu.

Elísabet mundi auðvitað ekkert eftir þessu í morgun.

 


Lukka

Á föstudag sendi ég sms á Möggu systur: Eigid tid sjens ad leyfa systrum ad gista annad kvold?

Svarið kom um hæl: Já, ég!!

Ég hringdi í hana. "Vann ég?" spurði hún.  Og þá kom í ljós að hún hélt að ég hefði sent þetta sms á marga og ætlaði aldeilis að tryggja að hún hreppti hnossið.

Eftir þessa forsögu þurftu systur auðvitað ekki að kvíða móttökunum hjá Möggu fremur en endranær.

Við mæðurnar vorum hérna heima á laugardagskvöldið, en hingað kom matarklúbburinn í aðventumatarboð. Og enn og aftur varð þetta ótrúleg veisla. Marineraður lax með rósapipar, síldarréttur, hrátt hangikjöt með piparrótarsósu og jólapaté var bara byrjunin, hreindýrasteikin alveg stórkostleg og svo kíttuðum við upp í troðfulla magana með ris a l'amande. Úff!

Við Kata sváfum á okkar græna fram undir hádegi í dag og Magga skilaði ekki systrum fyrr en hálf eitt. Þá fórum við að huga að aðventustússi og vorum komnar í startholurnar allar fjórar þegar Kata þurfti skyndilega að fara í vinnuna. Súrt, en svona er lífið. Við skutluðum henni og svo fórum við þrjár í Árbæjarsafn, fylgdumst með kertaframleiðslu, fengum að smakka á hangikjöti, spjölluðum við náunga sem skar út laufabrauð, snerum frá yfirfullu kaffihúsinu, prentuðum jólakveðju með handknúinni þrykkivél, keyptum kramarhús með bolsíum,  ókum suður í Hafnarfjörð, fengum heitt súkkulaði á Súfistanum og röltum svo um jólaþorpið. Yndislegur sunnudagur á aðventu, þótt Kötu væri sárt saknað.

Þegar við skutluðum Kötu í vinnuna sagði Margrét upp úr eins manns hljóði: "Það er svo margt sem mig langar til að gera í lífinu."

Nú, hvað skyldi það nú vera?

"Mig langar að hitta Lucky í draumi (hundavinarins er enn sárt saknað), verða uppfinningamaður, eignast alla vega eitt gæludýr og opna svo daggæslu þegar ég verð stór."

Elísabet er líka með framtíðarplönin á hreinu: "Mig langar að verða söngkona og leikkona og danskona. Og hitta Lucky í draumi."


Rautt

Í dag er rauður dagur í Fossvogsskóla.

Systur eiga rauðar úlpur og rauðar kuldabuxur og ýmislegt annað rautt. En merkilegt nokk er fátt rautt í fataskápnum. Þær fara ekki lengur í Valsbolum í skólann og hafa ekki enn eignast Víkingsboli, svo þetta var nokkuð snúið.

En við fundum auðvitað rauða boli fyrir rest og systur tóku jólasveinahúfur með sér. Þær ætla svo að fara til afa og ömmu eftir skólann, en undir kvöldið mála þær piparkökur með Kötu. Ég verð á Mogga fram á kvöld, en fæ áreiðanlega sérskreyttar piparkökur þegar ég sný heim Wink

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband