Færsluflokkur: Bloggar

Staðganga og meðganga

Pistill í Mbl. 17. september

 

Á næstunni verða án efa líflegar umræður um staðgöngumæður. Á að leyfa konum að ganga með börn, sem getin eru af öðru fólki með tæknifrjóvgun? Börn, sem þær „eiga“ ekkert í, en bera og næra alla meðgönguna og foreldrar taka við eftir fæðingu?

Um nóg er að rökræða. Sumir munu segja að staðgöngumóðir geti tryggt hamingju fólks, sem ekki getur eignast börn upp á eigin spýtur. En aðrir að barneignir séu ekki óskoraður réttur fólks. Dögg Pálsdóttir lögmaður benti á það á bloggi sínu í vor að fyrst lesbíum væri nú heimilt að fara í tæknifrjóvgun með gjafasæði þyrfti að ræða hvort hommum ætti ekki að vera heimilt að eignast börn með gjafaeggi og staðgöngumæðrun, svo jafnræðis væri gætt. Þar er enn eitt álitaefnið.

Þeir eru til, sem hafa þungar áhyggjur af því að staðgöngumæðrun verði „atvinnuvegur“, þ.e. að konur muni freistast til að ganga með börn gegn greiðslu. Peningar koma málinu ekkert við, segja aðrir og benda á að með lögum megi hindra að konur selji aðgang að legi sínu. Greiðslur til staðgöngumæðra hljóti líka fremur að vera áhyggjuefni í löndum þar sem sárasta fátækt ýtti konum til örþrifaráða.

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir nefndi þetta í viðtali við Morgunblaðið í gær. „Þetta má ekki verða atvinnuvegur,“ sagði hann og bætti við að heppilegra væri að staðgöngumóðir væri nákomin hinum verðandi foreldrum.

Matthías er því sammála Reyni Tómasi Geirssyni, prófessor og yfirlækni á kvennasviði LSH. „Ég tel það heppilegra en að velja ókunnugt fólk,“ sagði hann í apríl sl. „Ég hef það á tilfinningunni að óskyld kona myndi frekar vilja halda barninu en ef þetta væri meðal skyldfólks. Það sama átti við um ættleiðingar áður fyrr. Þær reyndust auðveldari ef börn voru látin til ættingja.“

Er hægt að binda ákvæði um nánd foreldra og staðgöngumóður í lög? Væri ekki afskaplega auðvelt að komast framhjá slíku ákvæði? Og hvers vegna ætti löggjafinn, ef hann ákveður að leyfa staðgöngumæðrun á annað borð, að skipta sér af því hversu náin foreldrar og staðgöngumóðir eru?

Staðgöngumæður nefna ýmsar ástæður fyrir ákvörðun sinni. Stundum eru þær vissulega að hjálpa nánum ættingjum. Í öðrum tilvikum ákveða þær að launa eigið barnalán með því að ganga með barn fyrir fólk, sem ella á enga möguleika á að njóta sömu hamingju. Það er nefnilega til fólk, sem finnur sanna gleði í að gleðja aðra. Staðgöngumóðir, sem vitnað var til í sjónvarpsfréttum, sagðist alltaf hafa þráð að ganga með barn fulla meðgöngu, eftir að hennar barn fæddist töluvert fyrir tímann. Hennar ástæða er ekki verri en annarra.

Í þessu máli syngur hver með sínu nefi. Fólk verður seint sett undir sama hatt, sérstaklega ekki þegar um svo tilfinningarík mál er að ræða og barneignir.


Í Söngvaborg

Systur eru að bræða úr sér af spenningi þessa dagana. Þær fá að vera með í Söngvaborg með Siggu Beinteins og Maríu Björk, Mása ofurbangsa og öllu því gengi.

Þær horfðu á Söngvaborg þegar þær voru litlar. Þá kvörtuðu þær sáran að fá ekki að vera með að syngja og dansa. Svo hættu þær að suða um það og létu eins og þær væru orðnar allt of fullorðnar fyrir svoleiðis lagað. Rígrosknar bara.

Þegar Sigga bauð þeim í síðustu viku að vera með trylltust þær úr kæti, svo fullorðinsgríman var greinilega afskaplega þunn.

Núna hlusta þær út í eitt á disk með lögunum, æfa sporin, fyrirskipa kaupa á kúrekahöttum o.fl. Upptökur verða í næstu viku, svo það er eins gott að hafa þetta allt á hreinu.

Síðasta föstudag var náttfatapartý hjá Mörtu Maríu og þar var gengið: Gestgjafinn, systur og Tara. Þær horfðu á mynd "og svo settum við pásu og fórum upp og fengum að borða og það var píta í matinn og svo fórum við aftur niður og horfðum meira á myndina en fyrst höfðum við diskópartý og veistu bara hvað hún Marta María á svona diskókúlu og allt og svo gleymdi ég að segja eitt, við fórum nefnilega allar í heita pottinn og svo....."

Einhvern veginn svona var lýsing Elísabetar. Hún tilkynnti á laugardagsmorgun, þar sem þær vinkonurnar sátu allar á náttkjólum og horfðu á barnatímann, að þetta væri "notalegasti dagur lífs míns". Hvorki meira né minna.

Á laugardagskvöld fórum við Kata að fagna með Möggu systur fimmtugri. Merkilegt hvað hún er, kellingin. Systur voru á meðan hjá afa Torben og ömmu Möggu. Sem var hið mesta þjóðráð, því þær voru auðvitað örmagna eftir stuðið hjá Mörtu og fóru létt með að sofa í hálfan sólarhring í rólegheitunum hjá afa og ömmu.

Þær vildu líka hafa það náðugt með okkur á sunnudeginum. Við bökuðum brownies, fengum Knút frænda og uppáhaldsfrændsystkinin í heimsókn, höfðum almennilega sunnudagssteik og fórum svo í dálítinn göngutúr um hverfið, til að bæta meltinguna. Tara kom auðvitað með, en Marta María var full ábyrgðarkenndar heima hjá sér að svæfa litla bróður og fékkst ekki til að koma með.

Logalandsgengið er í góðu formi.

 

 


Sirkus

Familían fór að sjá sirkus í gærkvöldi. Það var mikil upplifun, enda margt ágætlega gert hjá sirkusfólkinu.

Systur áttu ekki til orð yfir 12 ára stelpu sem sveiflaði sér í loftfimleikum. "Svona vil ég gera," sagði Elísabet og lofthrædda ég lokaði augunum. Nógu slæmt var að horfa á bláókunnuga stelpu dingla í rólu uppi undir lofti, en tilhugsunin um dóttur mína þarna uppi var óbærileg.

Trúðurinn var skemmtilegastur. Ég þoli ekki trúða, þessa hefðbundnu með rauða nefið og úfna hárið, fæ satt best að segja hroll þegar þau skrípi birtast. Þessi var ekki svoleiðis, bara fyndinn.

Á leiðinni heim hófust samningaviðræður um hvort systur mættu sofna í stóra rúmi. Elísabet, sem hefur alltaf verið á eilífðar rápi á nóttunni, er dugleg að semja um að fá að sofna þar, ef hún nær að halda sér í sínu rúmi heila nótt. Margrét nýtur þá góðs af, eins og systir hennar benti á: "Hugsaðu þér ef ég svæfi alltaf heila nótt í rúminu mínu, þá mættum við aldrei sofna í stóra rúminu!" sagði hún og var þá búin að snúa málum rækilega á hvolf. "Hugsaðu þér ef þið systur væruð báðar eins og þú, alltaf að vakna á nóttunni. Þá væruð þið í vondum málum," sagði Kata.

Löng þögn í aftursætinu.

Þegar heim kom héldu umræður áfram. "Hugsaðu þér," sagði Elísabet við mig, "ef við Margrét gætum alltaf sofið í stóra rúminu og þið mynduð bara sofa í okkar rúmum."

"Já," sagði ég, "ætli þú myndir þá ekki vappa úr stóra rúminu og yfir í ykkar herbergi á nóttunni?" spurði ég.

Hún taldi það líklegast. En lýsti því svo yfir að hún skildi bara ekkert í því af hverju hún mætti ekki bara alltaf vera í stóra rúminu. "Það er miklu stærra en mitt rúm og þið notið aldrei plássið í miðjunni!"

Þetta voru samræður nr. 24.524 um stóra rúmið og þá heiftarlegu mismunun að aðeins "sumir" í fjölskyldunni fái að sofa þar.

Málið verður áreiðanlega tekið upp síðar.

 


Hreyfing

Nú virðist fólk farið að bretta upp ermarnar í ráðhúsinu:

Börnum á biðlistum eftir plássi á frístundaheimilum í borginni hefur fækkað úr ríflega 1.400 í ríflega 1.000 frá því í liðinni viku. Meginástæðan fyrir þessum góða árangri er að tekist hefur að ráða fleiri starfsmenn til starfa á frístundaheimilin.

Borgarráð samþykkti í dag samhljóða að tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, að fela sviðsstjórum ÍTR og menntasviðs að leiða vinnu við gerð tillagna um hvernig leysa megi manneklu og aðstöðuvanda frístundaheimila í borginni. Markmiðið er að tryggja sem flestum börnum á aldrinum 6 – 9 ára fjölbreytt frístundastarf eftir að skólastarfi lýkur á daginn. Nú hafa 1.800 börn fengið vistun á frístundaheimilunum. Vegna manneklu bíða ríflega 1.000 börn enn eftir plássi á heimilunum.

Tillaga borgarstjóra gerir ráð fyrir að brugðist verði við ástandinu með því að fela sviðsstjórum ÍTR og menntasviðs að leiða vinna við gerð tillagna til að leysa vanda frístundaheimilanna bæði hvað varðar manneklu og aðstöðu innan grunnskólanna. Leitað verður leiða til að efla og samþætta störf sviðanna auk skóla og frístundaheimila í þessu skyni. Jafnframt verða kannaðar fjölbreyttar lausnir varðandi rekstur frístundaheimilanna svo sem með samstarfi við félagasamtök, íþróttafélög og aðra.

Auk sviðsstjóra ÍTR og menntasviðs og fulltrúa umræddra ráða munu sérfræðingar ÍTR og sérfræðingar innan skólakerfisins vinna að gerð tillagnanna. Náið samráð verður haft við mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar sem og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar hvað varðar hugsanlegar breytingar á vinnuumhverfi starfsmanna.

Þetta hlýtur að vera góðs viti. Koma svo!


Minni

Systur löbbuðu heim með Töru í dag og áfram á fótboltaæfingu. Þær eru óðum að sætta sig við skiptin yfir í Víking, enda annað varla hægt þegar Tara, Marta María, Halldóra og fjölmargar aðrar vinkonur æfa með þeim.

Um síðustu helgi keyptum við nýja fótboltaskó. Þær spretta auðvitað svo hratt að skórnir sem þær notuðu innanhúss síðasta vetur eru löngu orðnir of litlir. Rétt eins og takkaskórnir frá í sumar munu ekki lifa annað sumar.

Systur völdu sér báðar gyllta skó. Gott hjá þeim að tryggja sér gullskóinn strax!

Við kvöldmatarborðið snerust samræðurnar aðallega um maura. Guð má vita af hverju. Samræðulistin á þessu heimili fer stundum óskiljanlega vegu. Margrét þurfti að vita allt um mauraætur og svo fóru þær að rifja upp kynni sín af maurum. Við Kata urðum mjög undrandi þegar þær fóru að rifja upp atvik frá Bandaríkjaferð okkar sumarið 2005. Ég hélt nú svei mér þá að kríli myndu ekki svona langt aftur. En bunan stóð út úr þeim, þær mundu eftir að hafa gert tilraun hvort maurarnir vildu frekar smáköku en appelsínu (þeir vildu appelsínuna) og að þeir voru rauðir, gulir og grænir eftir krítina sem þær lituðu með á stéttina fyrir framan húsið heima hjá Jen, Suze og Bryce.

Neyðarlegt hvað ég var sjálf lengi að rifja þetta upp.


Hollt

Systur eru farnar að æfa fótbolta með Víkingi, eftir tvö ár sem Valsarar. Áður en Linda yfiráróðursmeistari og innrætari Vals rekur upp ramakvein vil ég taka fram að um annað var hreinlega ekki að ræða! Nóg er nú skutlið á þessum krílum fyrst þær komast ekki í frístundaheimili, án þess að líka sé verið að fara með þær út úr hverfinu í fótbolta.

Ég sótti þær á æfinguna áðan, systur og Töru. Þær  börðust eins og ljón á vellinum, að sjálfsögðu. Núna fengu þær að horfa aðeins á barnatímann. Og eftir Latabæjarskammt í gær og fótbolta í dag var auðvelt að fá þær til að moka í sig gúrku, gulrót og vínberjum.

Held að ég verði að fá mér eitthvað óhollt til að jafna þetta út. Annars gætu straumar í húsinu riðlast.


Listaspírur

Systur voru lukkulegar að fá loks Latabæ aftur. Þeim finnst áskrift að Stöð 2 borga sig, bara vegna Latabæjar. Við mæðurnar erum enn að melta þetta með okkur, en getum að vísu alveg hætt að velta vöngum í bili,  búnar að skuldbinda okkur með áskrift í marga mánuði.

Við gerðum fátt í dag, sem er afskaplega gott á sunnudögum. Skruppum að vísu á Kjarvalsstaði, þar sem Margrét fór ýmist alveg ofan í myndirnar hans, eða stikaði langt í burtu til að njóta þeirra úr fjarska. Henni fannst mjög merkilegt að sjá mosa og hraun og fossandi ár út úr myndunum í fjarska og svo öll þessi ótrúlegu smáatriði og pensildrætti í nálægð.

Við fórum líka á Listasafn Reykjavíkur og þar fannst þeim skemmtilegra. Stóll sem hangir í rafmagnsgítarstrengjum, herbergi með ljómandi stjörnum og annað sem var upplýst með skærum flúorljósum í bleiku, grænu og fjólubláu. Eintóm hamingja.

Afi Torben og amma Magga komu í mat í kvöld. Systur voru kokhraustar og vildu fara út eftir matinn, að leika við vinkonur sínar. Við rákum þær í hátt og þær eru löngu farnar að hrjótaþ


Mamma mia!

Eftir náðugan morgun kíktum við í Kringluna. Kata fór í útréttingar á meðan ég fór á kaffihús með systrum og Töru. Þær úðuðu í sig ristuðu brauði og fengu heitt súkkulaði með.

Við kíktum líka aðeins niður í bæ, bara á smárölt. Í bílnum á leiðinni heim býsnuðust vinkonurnar yfir að einhver hefði krotað á ljósmyndirnar af barnsandlitunum, sem prýða vegginn á horni Lækjargötu og Austurstrætis.

Þær töluðu fram og til baka um þetta, en Margrét komst að þeirri niðurstöðu að það gæti verið vont að vera "of töff". Af því að "ef maður er of töff þá fer maður kannski að graffa svona á myndir. Og stundum er maður kannski vondur við annað fólk. Og stundum fullur!"

Elísabet og Tara voru sammála. Það er vont að vera of töff.

Við Kata settum Mamma mia í spilarann til að yfirgnæfa flissið í okkur.

Í aftursætinu tóku þrjár litlar undir, með textann alveg á hreinu:

"Mamma mia, hír æ gó agen...."


Tillaga um að fara að vinna

Í dag lagði borgarstjóri fram tillögu um að sviðsstjórum ÍTR og menntasviðs verði falið að leiða vinnu við gerð tillagna um hvernig leysa megi manneklu og aðstöðuvanda frístundaheimila í borginni.

Tillagan verður tekin til afgreiðslu á næsta fundi borgarráðs að viku liðinni.

Mér er satt best að segja hlýtt til  borgarstjóra og hef haft trú á röggsemi hennar. En mikið óskaplega varð mér illa  við þegar ég heyrði þessa frétt. Er þetta ekki grín?? Að í næstu viku verði afgreidd tillaga um að sviðsstjórarnir leiði vinnu við gerð tillagna?? Ég var nú svo barnaleg að halda að akkúrat núna, þegar 1400 börn bíða eftir vistun á frístundaheimilum, væri verið að vinna alla þá vinnu sem nauðsynleg væri til að leysa málið, hvort sem væri í samvinnu ÍTR og menntasviðs eða einhvers staðar annars staðar.

Er lögmál að allt verði að hreyfast á hraða snigilsins? Eftir slétta viku, 11. september, verður sviðsstjórunum sem sagt falið að leiða vinnuna og ætli þeir byrji þá ekki á því að kalla fólk saman til fundar, líklega í vikunni þar á eftir? Þá verður kominn 18. september. Á þeim fundi verður ákveðið að kanna hitt og þetta og hittast að viku liðinni, 25. september, til að ræða það betur. Á þeim fundi átta menn sig á að enn þurfi að kanna eitthvað betur og ganga úr skugga um hitt og þetta. Og væri ekki ráð að funda með skólastjórum? Jú, höfum þann fund í vikunni þar á eftir. Byrjun október, jamm það er nú aldeilis fínt. En best að klára þessi fundarhöld samt tímanlega áður en vetrarfrí skella á í skólum, af því að þá lenda sviðsstjórarnir og allir hinir kannski í mestu vandræðum að mæta á fundi....

Nú þarf borgarstjóri að sýna röggsemina sem hún býr yfir og  skikka sviðsstjórana og allt þeirra fólk til að setjast niður og standa ekki upp fyrr en lausnin er fundin!


murf!

Líf mitt er ekkert sérstaklega spennandi akkúrat núna. Ligg með hægri fót upp í loft, þoli ekki að reisa mig upp, hvað þá stíga í hann. Úff, ekki akkúrat það sem hentaði vel undir lok vikunnar. Ég veit hreinlega ekki í hvorn fótinn ég á að stíga!!

Já, ég veit, þessi var lélegur.

Systur voru á þönum í kringum mig í morgun, áður en þær fóru í skólann. Þær fara beint í sund eftir skólann og svo ætlar afi Torben að sækja þær. Þær lesa hjá afa og ömmu og þar verður áreiðanlega dekrað við þær út í eitt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband