Færsluflokkur: Bloggar

Litla lirfan ljóta

Systur hafa hjúkrað mér og veika fætinum af innlifun.

Í gær sat ég við sjónvarpið og Elísabet hlóð upp þremur koddum svo ég gæti hvílt fótinn á þeim. Henni leist hins vegar ekkert á hversu mjög hrúgan seig, horfði á þetta lengi vel, en hljóp svo inn í herbergi. Þaðan kom hún út með eins konar frauðplastplötur og stakk þeim inn á milli koddanna. Pottþétt verkfræði þar og hrúgan studdi vel undir fótinn.

Þær fóru í fimleika í gær og voru nokkuð lukkulegar. Að vísu hafa þær ekki sama þjálfara og í fyrra, en líst ágætlega á þá tvo sem nú eru teknir við. "Þær vita samt ekki hvað við kunnum mikið," sagði Margrét og pirraði sig dálítið á því að þurfa að endurtaka æfingar frá í fyrra.

Þær sögðu langa og afar ítarlega sögu af grasormi í skólanum. Ormi, eða lirfu eða einhverju kvikindi og voru nú ekki alveg vissar. Þetta kvikindi höfðu þær tekið í fóstur, ásamt Töru, Mörtu Maríu og Halldóru og kallað Palla Hansason.

Palli entist ekki lengi. Hann var steindauður fljótlega upp úr löngu frímínútum. Þær notuðu hverja lausa stund það sem eftir var dagsins að útbúa fína leiðið hans, skreytt laufblöðum og blómum. "Við gerðum faðirvorið og allt saman, en svo komu átta ára strákar í þriðja bekk og skemmdu leiðið!!"

Fuss og svei.

En á heimasíðu Fossvogsskóla eru þær vinkonurnar með kvikindið. Margrét, Tara, Elísabet, Marta María og Halldóra.

pallilirfa  


Á fílslöppinni

Ég hoppa um eins og vitleysingur í vinnunni. Eða dreg á eftir mér hægri fót, öllu heldur. Þannig skakklappaðist ég um í gær, fór í Nóatún, Jenný súperbloggvinkona bankaði í öxlina á mér og ég bara kinkaði kolli af því að ég var í stjóraleik í símanum (Blush) fór loks og lét lækni kíkja á löppina, hann sendi mig strax á spítala af því að þessi bólgna fílslöpp var svo blóðtappaleg, á spítalanum var ég skoðuð í bak og fyrir og reyndist bara vera með slæmsku út frá biluðu hné. Sjúkk! Dreg samt enn á eftir mér þrefalda löppina, en það hlýtur að skána. Ét bólgueyðandi og verkjalyf, eða mun gera það þegar ég aulast loks á löppinni í apótek.

Bara góð annars, eins og sagt er.


Forgangur

Systur eru alsælar eftir fyrstu vikuna í skólanum. Þær láta ekkert á sig fá ennþá þótt þær komist ekki í frístundaheimilið, enda hefur maður gengið undir manns hönd að redda þessu í vikunni. Við Kata höfum skutlað þeim fram og til baka og Thelma Törumamma hefur líka verið á þönum í kringum gengið. Magga systir hljóp undir bagga og afi og amma á Gilsó eru í startholunum. Svona gengur þetta auðvitað ekki heilan vetur, svo við Kata verðum að leggja heilann í bleyti um helgina. Enn er ekkert sem bendir til að þær systur komist á frístundaheimilið á næstunni. Verri dæmi eru reyndar til, eða hvað á það að þýða að halda 6 ára stelpu utan frístundaheimilis af því að foreldrar hennar sóttu ekki um vistun fyrr en í maí? Slíkt dæmi er í Mogga í dag.

Mér stendur slétt á sama um Laugaveginn og öll gömul timburhús í Reykjavík þessa dagana. Mörg hundruð milljónir fyrir ónýt hús og brunninn eru í mínum huga bara vitnisburður um bjánalega forgangsröðun pólitíkusa, sem tala út í eitt á tyllidögum um samþættingu skóla og frístunda.

En systur eru sem sagt lukkulegar, að vanda. Vikan hefur líka verið viðburðarík. Marta María átti afmæli á fimmtudag og þá var mikil veisla í Stjörnustelpum. Ég átti reyndar líka afmæli á fimmtudag og familían kom í kaffi um kvöldið.

Í morgun tók ég það rólega með systrum, þær fóru í langt og heitt bað og við horfðum aðeins á barnatímann, á meðan Kata hjálpaði til á markaðnum hennar Jóhönnu Kristjóns í Perlunni. Mikið er það nú annars frábært framtak! Það er ég viss um að sjóðurinn hennar Jóhönnu á eftir að tútna út og þá getur hún byggt skóla í Jemen.

Áðan var annar í afmæli á númer tvö, en þaðan fóru systur beint upp í Skorradal með guðmæðrum sínum. Við Kata ætlum að nota daginn til að vinna upp það sem sat á hakanum í vikunni, en skreppum svo til þeirra í kvöld eða á morgun. Við vorum að gera okkur vonir um að geta fundið ber einhvers staðar í nágrenni borgarinnar, en það verður að ráðast af veðri og vindum. 


Börnin okkar í borginni

Pistill í Mbl. 27. ágúst

Fjölskyldan vaknaði við vondan draum þegar skólinn byrjaði. Honum lýkur alla jafna klukkan tvö eftir hádegi og þá tekur ekkert við. Tvær sjö ára stelpur komast ekki á frístundaheimilið í húsnæði skólans. Enn vantar starfsfólk og því eru ekki nógu margir til að gæta barnanna.

Þetta hefði auðvitað ekki átt að koma okkur á óvart, enda árvisst vandamál. Í fyrra voru systur hins vegar 6 ára, gengu fyrir með pláss á frístundaheimilinu og gátu verið þar í góðu yfirlæti eftir skóla frá fyrsta degi. Þeim leið vel í regluföstum en skemmtilegum rammanum sínum og við gerðum líklega þau mistök að reikna með að svona yrði búið að börnunum okkar fyrstu skólaárin.

En nú eru þær systur orðnar sjö ára og byrjaðar í öðrum bekk. Þótt þær séu duglegar stelpur eru þær samt enn bara sjö ára. Þær eru ófærar um að sjá um sig sjálfar eftir skóla, eins og gefur að skilja og enginn vilji á heimilinu til að láta reyna á það. Þær eru sjö ára og mömmur þeirra báðar útivinnandi, rétt eins og foreldrar á velflestum heimilum öðrum.

Kannski höfðum við ekki varann á okkur í haust, af því að hver einasti stjórnmálamaður í Reykjavík, sem tjáir sig um frístundaheimilin, er allur af vilja gerður að kippa þessu í liðinn. Þar skiptir engu hvaða flokkar sitja við völd þann mánuðinn; allir eru sammála um að bregðast verði við og tryggja yngstu börnunum vist á frístundaheimilum eftir skóla. Og margir virðast á því máli að best færi á að samþætta starf skólans og frístundaheimilisins, a.m.k. hefur borgarstjóri talað á þann veg og er þar sammála oddvita Sam fylkingarinnar í menntaráði, sem hefur skólana á sinni könnu, og íþrótta- og tómstundaráði, sem rekur frístundaheimilin.

Kannski er peningaskorti um að kenna og þess vegna ekki hægt að hækka launin við starfsmennina á frístundaheimilum og lokka þannig fleiri til starfa. En hafa stjórnmálamennirnir hugsað sér að leysa vandann án þess að opna budduna? Reynslan hefur sýnt að stórar hugmyndir sem kallast nöfnum eins og „Samþætti ng frístundaheimila og skóla“ eru sjaldnast ódýrar í framkvæmd.

Er stjórnmálamönnunum kannski ekki full alvara? Getur verið að forgangsröðin hjá þeim sé önnur en hjá foreldrum, sem nú þeytast úr vinnu á miðjum degi til að skutla börnunum til afa og ömmu, koma þeim fyrir hjá vinum eða taka þau með í vinnuna? Hvað ætli sá þeytingur kosti fyrirtækin og þar með samfélagið? Fyrir nú utan óþægindin og óvissuna fyrir börnin og alla sem þurfa að taka þátt í dansinum.

Ég skora á stjórnmálamenn í Reykjavík að láta loks verkin tala. Þegar skólar byrjuðu vantaði 200 starfsmenn á frístundaheimilin og þar með voru 2400 börn í vanda. Þau og fjölskyldur þeirra eiga heimtingu á að borgin standi við stóru orðin.


Óspjölluð mey á útihátíð

Pistill í Mogga þriðjudaginn 18. ágúst:

 Á kvennafrídaginn 1975 fannst mér, þá 15 ára gamalli, áhugavert að fara niður í miðbæ og fylgjast með útifundinum. En ég var sannfærð um að þetta tilstand væri nánast óþarft. Var ekki alveg ljóst að allt yrði þetta úr sögunni þegar ég færi á vinnumarkaðinn? Varla væri launamunurinn verjandi lengur, fyrst búið var að benda á hann með óyggjandi hætti og allir virtust sammála um að hann væri óréttlátur? Varla taldi nokkur að konan ætti að sjá ein um heimilisstörfin fyrst hún starfaði líka utan heimilis?

Auðvitað lýsti þessi trú mín einfeldningshætti unglingsins. Á tímabili virtist okkur reyndar miða ágætlega. Launamunurinn er þó enn fyrir hendi og við rekumst sífellt á dæmi um að jafnrétti kynjanna hafi ekki verið komið á í raun. Samt virðist oft sem aðeins vanti herslumuninn. En alltaf, einmitt þegar bjartsýnin ætlar að taka völdin, slær í bakseglin. Við náum til dæmis ekki að útrýma niðurlægjandi og kvenfjandsamlegu orðbragði. Ungt fólk hefur kannski sér til afsökunar, að vera ekki búið að átta sig á að orð eru til alls fyrst. Þess vegna þykir jafnvel sniðugt að segja hina undarlegustu hluti. Allt í nafni gríns og gamans og án þess að leiða nokkurn tímann hugann að því hvað sagt er, hversu ömurleg mynd er dregin upp. Mynd af kvenfólki sem hefur aðeins það hlutverk að vera karlmönnum þóknanlegt. Og ungar konur taka sumar undir og halda að jafnrétti felist í að gera lítið úr kvenfólki, svo fremi sem þeim finnst það sjálfum í fínu lagi. Rétt eins og þær gangi inn í gamaldags hugmyndaheim með augum opin og taki meðvitaða ákvörðun um að láta hæða sig.

Hann er þó ekki svo ungur að hann hafi þá afsökun, bankamaðurinn sem var spurður í Viðskiptablaðinu á dögunum um áhuga annarra „aðila á bankamarkaði“ á að sameinast fyrirtæki hans. Hann var drjúgur með sig, viðurkenndi vinsældirnar og kaus að taka myndlíkingu, sem hann var augljóslega mjög ánægður með, a.m.k. teygði hann lopann þar til aulahrollurinn hafði læst sig um allan líkamann á meðan lesið var. Þetta sagði maðurinn á besta aldri, með fjölda fólks í vinnu: „Við erum svolítið eins og síðasta óspjallaða meyjan á útihátíð og þriðji dagur útihátíðarinnar er runninn upp, þannig að margir vilja inn í tjaldið. Það fara að verða fáir uppistandandi sem vert er að fá í svefnpokann en við erum hins vegar í þeirri stöðu að geta valið vel fyrir hverjum við myndum opna tjaldið, ef við gerum það yfirhöfuð.“

Hvað kemur manni til að taka slíka samlíkingu? Ætli þær hlæi að gríninu, ungu konurnar í höfuðstöðvum bankans á Akureyri? Eða var brandarinn bara ætlaður strákunum, sem vita að þetta er bara grín?

Kannski hefur bankastjórinn gert sér grein fyrir að þessi ummæli yrðu hent á lofti, en hugsað með sér að illt umtal væri skárra en ekkert.

Af því bankarnir fá ekki nóg af illu umtali þessa dagana.


Gegn ofbeldi

Edda bloggvinkona benti mér á þennan undirskriftalista.

http://dev2.dacoda.com/root/clients/unifem/petition/index.php

Getur nokkur sleppt því að kvitta á undirskriftalista gegn kynbundnu ofbeldi?

"Mansal, kynferðisleg áreitni, limlesting á kynfærum kvenna, morð vegna heimanmunds, heiðursmorð og útburður stúlkubarna eru hluti af sama vandamáli, þetta er allt ofbeldi gegn konum. Ekkert land, engin menning, engin kona ung eða gömul, er ónæm fyrir þessari plágu. Alltof oft er komist upp með þessa glæpi án þess að refsað sé fyrir og ofbeldismennirnir ganga lausir. “ sagði Regína Bjarnadóttir stjórnarformaður UNIFEM á Íslandi á blaðamannafundi í dag þegar hún vakti máls á mikilvægi þess að ríkisstjórnir heims gripu til aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi."

Tekið úr frétt á mbl.is

KOMA SVO OG KVITTA Á LISTANN !!!


Hamingjuvog

Halldór teiknari á 24 stundum hittir naglann oft á höfuðið.

Í dag sýnir teikning hans Guð með hamingjuvog Íslendinga í höndunum. Í annarri vogarskálinni er KREPPAN í öllu sínu veldi. Hinum megin er góða veðrið og sigurleikirnir gegn Rússlandi og Þýskalandi.

Þetta jafnast auðvitað út.

 


Enn og aftur

OK, þetta fer nú kannski að verða svolítið þreytt myndefni....

Það vill bara svo til að við þekkjum alla flottustu ljósmyndara landsins.

Bára, hirðljósmyndari og guðmóðir, var í Bankastræti með myndavélina sína:

 ganga3


Enn er gengið

Enn er gengið í gleðigöngunni og enn er tekin mynd af genginu úr Logalandi.

Nú var það annar vinur og líka Moggaljósmyndari, Kristinn Ingvarsson:

 

ganga2


Í göngunni

Júlíus vinur minn og Moggaljósmyndari tók mynd af mér og Kötu í gleðigöngunni, með öðrum stoltum fjölskyldum. Fyrir framan okkur horfði Elísabet stíft niður, enda að vanda sig á hlaupahjóli. Margrét hvarf í mannfjöldann.

 

gleðiganga


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband