Færsluflokkur: Bloggar
18.4.2008 | 18:17
Klaufi?
Ég stakk keðjusöginni í sambandi.
Hún gekk.
Í tíu sekúndur.
Byko getur kannski útvegað aðra á morgun.
Ég er ómeidd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.4.2008 | 14:02
Keðjusagarfrúin
Systur fóru sportlegar í skólann í morgun, í nýju æfingabuxunum, Nike-bol og strigaskóm. Margrét skellti sér svo í regnstakkinn, sem er kyrfilega merktur henni og Val.
Elísabet fór í úlpu.
Þegar við komum að Fossvogsskóla heilsuðu þær einni af 12 ára vinkonum sínum. Hún var í rauðum Hummel-jakka, að vísu ekki merktum Val, en þær systur mundu allt í einu að hún er Valsari. Og gátu rifjað upp hina og þessa Valsara í skólanum.
Elísabet fékk ógurlega bakþanka vegna úlpunnar sem hún var í. Og af því að hún er fordekruð þá stökk ég með nýja regnstakkinn í skólann kl. 9 og tók úlpuna til baka.
Vonandi verður sigurganga litlu Valsaranna um ganga Fossvogsskóla óslitin.
Svo fara þær í kakósúpuna til afa og ömmu í kvöld. En fyrst kemur afi hingað og hjálpar okkur að snyrta runnana meðfram austurhlið hússins. Ég er meira að segja búin að leigja keðjusög.
Þetta er fyrsta keðjusögin sem ég kem nálægt. Ekki seinna vænna, það verð ég að segja. Og mun sveifla henni eins og ég sé að leika í hryllingsmynd frá Hollywood. Hafið það, ljótu greinar!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.4.2008 | 18:16
Gallaðar, ekki gallaðar
Systur fengu nýja æfingagalla og regnstakka á Valsæfingu áðan. Þær eru alsælar. Þetta eru flottir gallar, með nafninu þeirra saumað í brjóst vinstra megin og á aðra skálmina. Regnstakkurinn er alveg kapítuli út af fyrir sig, hann er svo flottur.
Núna eru þær úti að leika með Mörtu Maríu. Og eru í nýju göllunum. Ég vona að þær verði ekki fyrir aðkasti í þessu Víkingshverfi. Elísabet hefur nokkrar áhyggjur af því, segist alla vega ekki ætla að fara í þessum Valsbúningi í skólann. Eða alla vega ekki alveg strax. Eða alla vega bara stundum. Kannski.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2008 | 10:34
Eldhúsvaskurinn
Á nær hverjum degi fara systur að heiman með allt sitt hafurtask. Þær skilja að vísu rúmin sín eftir og oftast nær rúmfatnaðinn, en flest annað fylgir þeim Kaninn kallar þetta að hafa með sér "everything but the kitchen sink".
Í gær þurfti að þvo sundboli og handklæði eftir skólasundið, því annar tími er í dag. Svo þurfti að hafa til leikfimidótið, því þær fara líka í leikfimi í dag. En það er sko aldeilis ekki nóg, því nú er farið að vora og þá fer bekkurinn þeirra í leiðangur um Fossvogsdalinn eða jafnvel alla leið upp í Elliðaárdal. Þá þarf sérstaka nestistösku og í henni á að vera eitthvað heitt að drekka á brúsa og gott nesti.
Systur fóru í morgun með skólatösku og viðhengda leikfimitösku, sundpoka og lítinn bakpoka með heitu kakói á brúsa og nestisboxi með nýbökuðum bollum og banana.
Þrátt fyrir að mæður þyrftu að taka sér sólarhrings frí frá öðrum störfum til að tryggja að dæturnar væru rétt búnar fyrir þennan eina fimmtudag, þá tókst þeim að gleyma að hafa til sandpappír, flauelsbút, loðinn tuskubút eða annað slíkt, fyrir tímann þar sem fjallað er um mismunandi áferð hluta.
Þetta er frábærlega skemmtilegur skóli, en Drottinn minn, var þetta svona þegar ég var lítil? Ég man að mamma hitaði kakó á morgnana og smurði nesti og auðvitað hafði hún til leikfimidót og sunddót.... o.k. líklega var þetta svona þá líka
Þegar þær voru að fara út úr dyrunum með allan farangurinn (Kata skutlaði þeim á bílnum að þessu sinni, þetta var eiginlega too much) þá minntu þær mig strangar á að koma nú að skólanum um leið og rútan kæmi með þær úr sundinu. Þær eru nefnilega að fara beint á fótboltaæfingu, eftir fótboltaæfingu máta þær nýju Valsbúningana, stilla sér upp fyrir myndatöku og fá svo pizzuveislu.
Ég verð þreytt bara við að skrifa þetta.
Á morgun ætla þær til ömmu Möggu og afa Torben og gista þar um nóttina. Elísabet lýsti því yfir á dögunum að hún ætlaði að gista þar 8 sinnum í mánuði, svo þær verða að halda vel á spöðunum. Núna þurfa þær ekki að taka með sér sængurfatnað og þær þurfa svo sannarlega ekki nesti!
Í gærkvöldi fengu þær grjónagraut í kvöldmat, eftir þrábeiðni Margrétar síðustu daga. Elísabet heimtaði þá að fá kakósúpu fljótlega, því það er hennar uppáhald. Ég sagði að það væri alveg möguleiki, en var ófáanleg til að lofa súpunni næstu daga.
Stuttu seinna hringdi síminn og Elísabet náði honum fyrst. Í símanum var amma Magga og þær ræddu um fyrirkomulag gistingar. Svo spurði amma Magga greinilega að einhverju, Elísabet leit skelmislega á mig og sagði í símann: "Kakósúpu!" Ég fór að hlæja þegar ég heyrði þetta, en Elísabet tók á rás með símann um allt hús og ætlaði aldrei að láta mig fá hann, því hún óttaðist að ég ætlaði að skipta mér af matseldinni í ömmu- og afahúsi. Það hvarflaði ekki að mér, hún má fá sína kakósúpu þar, í komandi dekri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.4.2008 | 20:00
Landsbyggðin
Jóhanna Sigurðardóttir var að tala um hjúkrunarrými í fréttunum.
Sagði að mikill skortur væri á hjúkrunarrými í Reykjavík.
En líka úti á landi. Og tók Kópavog sem dæmi
Hafðu það, Gunnar!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.4.2008 | 12:33
Flikk og flakk
Ég las bloggið hjá Jógu og fór að rifja upp hvar ég hef búið um ævina.
Ég fæddist á Ísafirði, þar sem afar og ömmur bjuggu. Fjórða í systkinaröðinni og fjölskyldan bjó í lítilli kjallaraíbúð á Tómasarhaganum í Reykjavík. Það var yndislegt að búa við sjóinn. Mamma og pabbi höfðu áður búið í Litla-Skerjafirði, en þegar börnin voru orðin fimm í þessari þriggja herbergja kjallaraíbúð fluttum við í Granaskjól. Bryndís elsta fékk sérherbergi, Kristján líka, ég og Magga vorum saman í herbergi og Ásthildur inni hjá mömmu og pabba. Ég var orðin sautján þegar mamma og pabbi keyptu einbýlishúsið við Einimel, Ásthildur 13, Magga systir 19, Kristján 21 og að mestu fluttur að heiman, Bryndís löngu flogin til Svíþjóðar.
Mamma og pabbi hafa alltaf búið nánast á sama blettinum, frá Litla-Skerjafirði á Tómasarhaga, svo í Skjólunum og loks á Melunum. Þetta er ekki stór radíus. En svona vilja þau hafa þetta, allt á sama blettinum eins og þegar þau voru krakkar fyrir vestan, býst ég við. Og aldrei fjarri sjónum.
Ég hef alltaf haldið því fram, að það ætti að snúa húsnæðismarkaðnum á hvolf. Það hefði verið frábært ef við hefðum haft þetta hús á Einimelnum þegar við vorum öll fimm lítil! Svo hefðum við getað flutt í Granaskjólið þegar þau elstu voru að týnast að heiman og núna færi áreiðanlega vel um mömmu og pabba í notalegu kjallaraíbúðinni við sjóinn ;)
Þegar ég flutti að heiman var það í litla stúdíóíbúð neðarlega við Laugaveg. Það var menningarsjokk að vakna upp á Laugavegi á hverjum degi, en auðvitað líka alveg rakin snilld fyrir rúmlega tvítuga stelpu.
Nú þarf ég að fara að hugsa mig verulega um......
Jú, næst var það Kambasel, svo fór ég til Noregs í eitt ár og bjó í hrörlegu húsnæði á bakvið höll konungs, því næst bjó ég á hæðinni fyrir ofan Jónatan Livingston Máv á Tryggvagötunni, svo .....aftur Kambasel kannski? Eins og mig minni það..., nei, for helvede.
Fyrsta íbúðin sem ég eignaðist var í Mávahlíð (sem mömmu og pabba fannst auðvitað alveg óskaplega austarlega!). Þar bjó ég, svo um tíma á Njálsgötu og Baldursgötu og í Auðbrekku í Kópavogi, en leigði Mávahlíðina út. Flutti svo þangað aftur og þá með Kötu.
Við Kata fórum til Kaliforníu 1999, vorum þar í tvö ár í leiguhúsnæði, komum heim með systur, fengum inni hjá Addý og Báru í Kópavoginum, keyptum svo í Barmahlíð og fyrir tveimur árum í Logalandinu.
Ætli þetta sé þá upptalið? Ég hef áreiðanlega gleymt einhverju.
Heimili á 16 stöðum. Það er ekki svo slæmt miðað við marga aðra, held ég. Þetta verður vonandi endanleg tala, ég hef ekki í hyggju að hreyfa mig héðan úr Fossvoginum.
Og hvað með systurnar? Þær áttu auðvitað sitt fyrsta heimili í fjóra mánuði í Kaliforníu, svo hjá Addý og Báru, í Barmahlíð og nú í Logalandi. Hérna verða þær vonandi lengi. Svo geta þær farið á leigumarkaðsflakk og lagst í útlandaferðalög, eins og ungt fólk á að gera.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.4.2008 | 09:45
Beyglað verðmætamat
(Pistill í 24 stundum)
Beygla með rjómaosti og skinku og tebolli með kostar tvöfalt meira á Kaffitári í Reykjavík en á kaffihúsi í Berlín. Heilar 1.250 krónur hér, en bara 629 krónur í Berlín. Hafið það, montnu Mið-Evrópubúar!
Við þurfum fleiri fréttir af þessu tagi, fréttir sem lyfta okkur upp og sýna fram á að hér býr alvöru fólk. Fjáð þjóð, sem vílar ekki fyrir sér að borga tvisvar sinnum meira fyrir brauðið en aumingjar annarra landa. Ég get lagt mitt af mörkum: Á Íslandi kostar Pet Shop plastdót fyrir krakka miklu meira en í Ameríkunni. Verðlag í Ameríku er fyrir ræfla.
Í fyrra ákváðu menn að lækka virðisaukaskatt af matvælum. Sumir sögðu, að neytendur ættu að njóta góðs af. Þær raddir voru frá einhverjum háskólaborgurum, sem höfðu búið of lengi í Mið-Evrópu og voru orðnir hryggleysingjar af dvölinni. Auðvitað var þetta gert til að matvöruverslanir gætu hækkað álagningu sína.
Núna ætla stjórnvöld að fylgjast náið með verðlagi hér á næstunni, svo fólk geti beint viðskiptum sínum til fyrirtækja í samræmi við það. Þetta er frábær hugmynd. Þá geta allir Íslendingar, aðrir en mestu aumingjarnir, séð það svart á hvítu að það er flottast að kaupa í matinn í klukkubúðunum. Þar er maturinn dýrastur og svo miklu, miklu dýrari en á meginlandinu.
Einstaka undanvillingar geta verslað þar sem ódýrast er. Þeir gera sér vonandi grein fyrir hversu óþjóðlegt er að styðja slíkar verslanir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.4.2008 | 09:31
Fegurð og pólitík
"Hvor hópur kvenna er fallegri, vinstri-sinnaðar eða hægri-sinnaðar?"
Síðdegisútvarp Bylgjunnar spurði hlustendur að þessu.
Ég er ekki að skrökva þessu. Mér myndi ekki detta í hug að ljúga svona stórkostlegu bulli upp á eina stærstu útvarpsstöð landsins.
Karlmennirnir þrír, sem eru skráðir fyrir síðdegisþættinum, þurfa enga aðstoð við klúðrið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.4.2008 | 13:46
Vor
Nú er aftur komið vor.
Vona að það standi alla vega til morguns.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.4.2008 | 09:32
Helgi
Addý og Bára komu í heimalagaðar pizzur á föstudaginn og systur tóku þeim með kostum og kynjum. Þær eru alltaf sannfærðar um að guðmæðurnar séu bara að heimsækja þær og á tímabili vorum við Kata að hugsa um að láta okkur bara hverfa. Þá voru þær fjórar á kafi í alls konar leikjum og knúsi og okkur var fullkomlega ofaukið. Sætastar, allar saman.
Morguninn eftir fóru systur í gítartíma og svo fengum við afa Torben og ömmu Möggu í heimsókn um hádegisbil. Síðdegis sátu svo nágrannarnir á númer 2 hjá okkur úti í garði. Það var sól og blíða og við nutum vorveðursins og hlógum að snjónum sem hafði vogað sér að láta sjá sig daginn áður.
Systur gistu hjá afa Torben og ömmu Möggu aðfaranótt sunnudags. Það er ansi langt síðan þær hafa verið í næturgistingu þar og þær kvörtuðu hástöfum undan því. "Ég ætla að gista hjá þeim 8 sinnum í mánuði!" sagði Elísabet, svo það er ljóst að hún verður ekki heima hjá sér um helgar á næstunni.
Við Kata skelltum okkur aðeins út á lífið, borðuðum á 101 með Urði upplýstu og drukkum hvítvín með. Þarna sátum við á rassinum í 5-6 tíma og urðum aldrei uppiskrokka með umræðuefni. Merkilegur fjári. Og situr þó engin sérstök speki eftir í mér. Nema heillaráðið, sem Urður fékk einhvern tímann frá upplýsingafulltrúa einhvers batterís í útlöndum. Þetta var gamall og lífsreyndur Breti, sem sagði henni að ef hún neyddist til að svara einhverju sem hún vildi helst ekki svara, þá ætti hún að tvinna saman blótsyrðum, svo upptakan yrði óbrúkleg í útvarpi og sjónvarpi. Þetta hafði hann oft gert. Ég óttast hins vegar að hérna yrði blótsyrðarunan bara birt og Urður yrði fljótt þekkt sem strigakjafturinn í utanríkisráðuneytinu. Og það vill hún auðvitað ekki, pen konan.
Þegar langt var liðið á kvöldið hitti ég gamlan vin og við kíktum í fallegu íbúðina hans í miðbænum. Stoppuðum nú ekki lengi, en ég var leyst út með gjöf, fallegri ljósmynd sem við Kata ætlum að setja á góðan stað hér heima.
Og svo var allt á kafi í snjó á sunnudeginum. Svei mér þá! Ekkert hægt að dásama vorveðrið í garðinum þann daginn. Systrum var svosem slétt sama þegar við náðum í þær til afa og ömmu um hádegisbilið. Þær vissu að til stóð að fara í sund með Ölmu uppáhaldsfrænku og Daníel uppáhaldsfrænda og það skipti auðvitað öllu. Fyrst skruppum við í Iðu og þær fengu rúnahálsmen frá Addý. Margrét sá rúnastafróf í fyrsta skipti á ævinni í skólanum á föstudag og nú skrifar hún allt á rúnaletri, litli nördinn minn. Þetta veldur stundum óþarfa ruglingi Hún hefur sérstök áhugamál, þessi elska, stekkur um allt hús með karateöskrum, höggum og spörkum og hripar svo niður á blað á rúnaletri. Skrítin skrúfa.
Við fórum svo í sundið og það var alveg jafn mikið fjör og við reiknuðum með. Fullorðna fólkið fékk meira að segja smá tíma í heita pottinum, af því að systur voru að ólmast með Ölmu og Daníel, en svo var öll fjölskyldan komin á fullt í boltaleik í sundlauginni.
Ég er með harðsperrur eftir sundknattleik: Setning sem ég hélt ég myndi aldrei skrifa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar