Færsluflokkur: Bloggar
11.4.2008 | 17:09
Plássfrekja
Föðurfamilían mín er að skipuleggja niðjamót í sumar. Slík mót eru haldin fimmta hvert ár.
Þeir eru ekki fáir, afkomendur Hermanns afa og ömmu Salóme. Þau áttu 11 börn og af þeim hópi er kominn annar margfalt stærri.
Síðasta sumar hittumst við systkinin í sumarbústað Bryndísar elstu systur. Þetta var þokkalegasti hópur, þótt marga vantaði.
Þarna voru mamma og pabbi. Og Bryndís stóra systir, Guðni maður hennar, Sverrir Páll sonur þeirra, kona hans og tvö börn. Gunnhildur dóttir þeirra, maður og tvö börn voru fjarri. Næstur er Kristján bróðir. Hann var sá eini sem var með fullt hús, með Ernu konu sína með sér, þrjú börn þeirra og dóttur Kristjáns, Grétu, sem er orðin fullorðin og komin með lítinn strákhnokka. Næst er Margrét systir, hún var Péturslaus og bara með soninn, ekki dótturina. Svo er ég, Kötulaus, en með báðar stelpurnar. Yngst er Ásthildur, hún var Mattalaus, með soninn með sér en dæturnar tvær voru fjarverandi.
Mamma, pabbi og börn voru þarna. Ef öll tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn hefðu verið þarna þá hefðu 33 troðist á myndina. Og pabbi er bara einn út 11 systkina hópi og við aðeins dropi í niðjahafið.
Mér skilst að ættingjarnir ætli að hittast í Skagafirðinum í sumar. En óttast mest að þar sé landrými ekki nóg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.4.2008 | 11:53
Lucky
Systur hafa verið sorgmæddar síðustu daga. Vinur þeirra, hundurinn Lucky, fór yfir á hinar eilífu veiðilendur á miðvikudag.
Þær vissu ósköp vel að Lucky var orðinn lúinn, enda 16 ára gamall. Hann var hættur að skoppa allt í kringum þær, sá ekki sem fyrr, heyrði ekki allt sem fram fór. En þeim systrum fannst alltaf jafn gott að hitta hann. Þær voru aðeins 5 mánaða þegar við fengum inni hjá Lucky, Addý og Báru, þá nýfluttar heim frá Ameríku og bjuggum þar heilan vetur. Lucky hefur alltaf verið til og þær héldu að hann yrði alltaf til. Og hann var hundurinn þeirra, þótt hann væri ekki á sama heimili nema á fyrsta árinu þeirra. Það var honum að þakka að Elísabet ákvað að verða "hundaeltari" þegar hún yrði stór, henni fannst svo gaman að skottast á eftir Lucky.
Á þriðjudagskvöld sögðum við systrum að Lucky væri orðinn mjög veikur. Hann myndi ekki lifa mikið lengur. Þótt þær hefðu margoft rætt um að hann væri orðinn mjög gamall brugðust þær illa við tíðindunum og grétu eins og litlu hjörtun væru að bresta. Okkur gekk illa að hugga þær, reyndum nú ekkert mikið fyrst, enda gott að gráta yfir sorgartíðindum.
Svo fóru þær inn í rúm og við kúrðum hjá þeim, ég lengst af hjá Margréti og Kata hjá Elísabetu. Margrét gat ekki talað um annað og þótt hún næði að þerra tárin brast hún alltaf í grát á nýjan leik. Elísabet ræskti sig hvað eftir annað, hún var með "svo mikið kalk" í hálsinum (við höfum oft sagt henni að fólk fái kökk í hálsinn, ekki kalk, en þær upplýsingar tolla illa í henni).
Hugurinn leitaði alltaf aftur til Lucky. Við Kata rifjuðum upp margar skemmtilegar sögur af honum og smám saman róuðust þær.
Margrét bað um að fá myndir af Lucky, til að ramma inn og setja upp á vegg í þeirra eigin húsi úti í garði.
Elísabet leit alvarleg til himins og bað Guð vinsamlegast að taka vel á móti Lucky þegar hann kæmi. "Og viltu passa að við getum hitt hann þegar við komum til himna, þótt það verði langt þangað til."
Þegar bæninni var lokið fékk hún bakþanka: "Ó, já, Guð, ef þetta er ekki hjá þér, hundahimnaríkið sko, viltu þá skila þessu til hundaguðsins?"
Þær voru úrvinda, en gekk samt illa að sofna. Við bárum þær yfir í stóra rúm og kúrðum hjá þeim þangað til þær sofnuðu. Svo ákváðum við að skipta liði um nóttina, Kata svaf í stóra rúmi með Elísabetu en ég í gestarúmi með Margréti. Við vissum að annars myndu þær hrökkva upp og eiga erfiða nótt, en með þessu móti sváfum við allar djúpum svefni til morguns.
Um leið og Tara vinkona bankaði upp á morguninn eftir til að verða samferða í skólann hlupu þær til dyra og sögðu henni tíðindin. Að Lucky væri mikið veikur og myndi bráðum deyja. Svo þurftu þær líka að segja frá þessu í skólanum. Þær voru hins vegar farnar að ræða um vin sinn á rólegum nótum og vildu endalaust rifja upp góðar sögur af honum. "Segðu okkur þegar þú misstir húfuna í vatnið og Lucky náði í hana," sagði Margrét, sem man alltaf alla hluti. Ég var búin að steingleyma sögunni, sem er áreiðanlega nokkurra ára gömul, en Margrét gat sjálf rifjað hana upp.
Þær voru glaðar að hafa eytt páskunum með Lucky og guðmæðrunum. "Ég er mjög glöð að við sváfum enga nótt í sumarbústaðnum hjá ykkur," tilkynnti Elísabet. Þær systur gistu nefnilega í sumarbústað guðmæðra um páskana og við Kata í öðrum bústað skammt frá. Þær vöknuðu því með Lucky á hverjum morgni. Og voru báðar hundaeltarar þá helgina.
Í gærmorgun sögðum við þeim að nú væri Lucky dáinn. Þær tóku því af ró og héldu áfram að rifja upp góðar minningar. Báðar eru þær undrandi á því að Lucky skuli ekki vera í heimsmetabók, jafn gamall og hann varð. Svo sögðust þær kannski ætla að halda veislu, af því að Lucky hefði verið svo frábær og maður ætti að vera glaður yfir frábærum hundi, en ekki bara sorgmæddur þegar hann deyr.
Núna eru þær óskaplega ánægðar með að hafa gefið honum sérstakan pakka á dögunum, með harðfiski, pylsum og mjúkum kodda. Og sannfærðar um að Lucky fái núna allan þann harðfisk og allar þær pylsur sem hann getur í sig látið.
Þær eiga enn bágt með sig, þegar þær tala um Lucky.
Fyrsta sorgin líður ekki hjá á nokkrum dögum.
Bára guðmóðir hefur tekið margar fallegar myndir af systrum og Lucky.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.4.2008 | 00:10
Stupidos!
Systur skrópuðu á fótboltaæfingu í dag. Ég verð að viðurkenna að ég átti hugmyndina, veðrið var svo fallegt að mér fannst nær lagi að ólmast í fótbolta á pallinum en fara inn í hús. Ég er fegin núna, þegar farið er að snjóa! Hvað á það á þýða?
Tara kom með systrum heim, brá sér svo af bæ og kom aftur klukkutíma síðar. Þær eru óaðskiljanlegar, þessi krútt. Fjórða skyttan, á númer 2, er enn með hita, en nær sér vonandi fljótt. Hennar er sárt saknað.
Í dag var okkur Kötu kláru kippt niður á jörðina. OK, það hefur nú aðallega verið ég sem hef mært Kötu fyrir skynsemi og almenn fullorðinsheit, en hún hefur oftast átt inni fyrir því. Í alvöru.
Undanfarna daga hefur hún verið hreint að drepast í herðunum, vöðvabólgan alveg að ganga frá henni og þessu hefur fylgt mikill höfuðverkur. Henni var alveg hætt að litast á blikuna. Og við áttum margar gáfulegar samræður, þar sem við reyndum að kryfja málið. "Ætli ég hafi sofið svona vitlaust í nótt?" velti hún fyrir sér og ég lagði eitthvað gáfulegt til málanna um kodda, einn eða tvo og svo framvegis, reyndi að nudda aumar axlirnar á henni og var alveg jafn bit á þessum óvenjulegu verkjum og hún.
Þótt við værum á tímabili jafn vitlausar, þá sá hún ljósið á undan mér.
Hún lenti í mjög hörðum árekstri fyrir skömmu. Ætli geti nokkuð verið að helaumar axlir og heiftarlegur höfuðverkur eigi uppruna sinn að rekja þangað?
Döh!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.4.2008 | 11:34
Listastrumpur
Ég tók Strumpaprófið á netinu. Og hlýt að hafa ruglast eitthvað í svörunum, því niðurstaðan er alveg út úr kú. "Artistic soul?" Er þetta fólk ekki að grínast?
Og hvenær í ósköpunum viðurkenndi ég að ég gæti verið "moody at times?" Vissulega er það satt og rétt, en hvernig fékkst sú niðurstaða? Þegar ég sagðist síðast hafa lesið tímarit? Eða þegar ég sagði að náttúrufegurð höfðaði til mín?
Jájá, ég er örugglega original. Nema hvað.
Hérna er prófið:
http://bluebuddies.com/smurf_fun/smurf_personality_test/smurf_personality_test.htm
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.4.2008 | 10:35
Hvað er klukkan?
Fjölskyldan svaf yfir sig í morgun. Systur voru skiljanlega örmagna eftir gærdaginn og ein sundferð hafði greinilega næstum gengið frá mömmum.
Mig rámar í að klukkan mín hafi hringt og líka að hafa heyrt óminn af vekjaraklukku Margrétar. Hún er með hana á náttborðinu hjá sér og undurfljót að slökkva um leið og hún byrjar að pípa. Elísabet á líka vekjaraklukku, en þar sem hún laumar sér oft upp í stóra rúm undir morgun gáfumst við upp á að láta klukkuna hringja við hennar rúm. Ég var alla vega orðin hundleið á að skrölta yfir í herbergið þeirra til að slökkva á klukkunni á meðan Elísabet boraði sér lengra undir sæng í stóra rúmi og ekki hvarflaði að Margréti að slökkva á klukku systur sinnar. Hún átti nóg með sína.
Við skreiddumst fram úr klukkan hálf átta og systur voru fljótar að hafa sig til, enda vissu þær að annars myndu þær missa af labbitúrnum í skólann og það vilja þær alls ekki. Margrét var samt dálítið annars hugar og allt í einu var hún búin að móta hugmyndina sína: "Mér finnst að það ætti að vera svona myndavél á vekjaraklukkum. Þá myndu þær hringja og hringja alveg þangað til maður væri kominn úr rúminu."
Snjöll hugmynd. Ef ekki nægir að sofa í tíu tíma, þá er best að hafa gáfaða vekjaraklukku með myndavélarbúnaði, sem fylgist með að allir hunskist á fætur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2008 | 23:14
Af munni
Systur sögðu mömmu sinni nákvæmlega í hvaða ástandi Litli skítur hefði verið, rétt eins og hún vissi það því miður ekki manna best.
Þær sögðust líka hafa kvatt hann vel og lengi.
"Ég kyssti hann oft. Af munninum," sagði Elísabet.
Kata hváði. Af munninum?
"Já, þú veist, kossarnir mínir voru beint af munninum!" sagði Elísabet.
Þá er Litli skítur, sú járnahrúga, kominn í hóp þeirra fáu útvöldu, sem fá kossa frá henni. Knúsum splæsir hún alloft á fólk í kringum sig, en kossar eru sjaldgæfari. Af munninum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 22:57
Búnar
Systur liggja enn í sömu stellingum og þegar þær sofnuðu. Algjörlega búnar eftir daginn.
Við stóðum við loforðið og fórum með þær í sund strax eftir fimleikana. Þær ólmuðust í klukkutíma, æfðu sig að kafa, hoppuðu út í laug, köfuðu, fóru upp úr, hoppuðu út í, köfuðu...
Við fórum ekki upp úr fyrr en klukkan átta og þá fengu þær pylsur í kvöldmatinn. Þær geta auðvitað ekki hugsað sér neitt betra og gleyptu í sig tvær pylsur á mann, glorhungraðar eftir allar æfingarnar.
Þegar við komum heim báðu þær okkur vinsamlega að fá far með okkur inn. Ein stelpa í hvort mömmufang, háttað, tannburstað, knúsað og þarna liggja þær enn. Í sömu stellingum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 18:09
Bless, Litli skítur
Nú er loks búið að draga hinn ofurkrumpaða Litla skít til höfuðborgarinnar. Í dag tók ég bílaleigubíl, í trausti þess að hitt tryggingafélagið bæti skaðann að fullu og ákvað að fara að sækja ýmislegt lauslegt, sem enn leyndist í þeim litla.
Kata minnti mig á að systur vildu alveg endilega fá að sjá Litla skít áður en hann hyrfi í málmpressuna miklu. Ég sótti þær í skólann á splunkunýjum, eldrauðum bílaleigubílnum, sem þær fussuðu og sveiuðu yfir. Aldrei nokkurn tímann höfðu þær vitað eins ömurlegan bíl. Þá var nú Litli skítur betri! Tryggar, þessar elskur, enda hefur Litli skítur borið þær víða, allt frá því að þær voru rúmlega fjögurra ára. Smábörn.
Við ókum á bílaplanið þar sem sá litli stóð, ásamt mörgum öðrum krumpuðum. Systur komu fljótt auga á þann litla, ruku svo út úr bílnum og klöppuðu föllnum félaga í bak og fyrir. Þær hjálpuðu mér við að selflytja eigur okkur í bílaleigubílinn: Tvær bílasessur undir þær, tvö flísteppi, sem þær hafa oft kúrt undir, tvær snjósköfur, hleðslusnúru fyrir gemsa, handfrjálsan búnað fyrir gemsa, smápeninga í stöðumæli og nokkra penna. Svo rak Elísabet augun í hálsmenið hennar Margrétar, sem hafði hangið á baksýnisspeglinum. Spegillinn losnaði við áreksturinn og datt niður á gólf, en til allrar hamingju tók Elísabet eftir hálsmeninu og fékk knús fyrir frá systur.
Ég varð að taka mynd af þeim við Litla skít. Þær þurftu að skoða skemmdirnar vel og vandlega. Ég útskýrði fyrir þeim hvað sneri upp og niður og svo þurftum við allar að skoða líknarbelgina, sem höfðu blásist út. Áhugavert. Við sáum líka, að þótt skemmdirnar virtust ekki eins stórkostlegar í fyrstu og við höfðum óttast, þá sagði það ekki alla söguna. Framhurðina farþegamegin var erfitt að opna, öryggisbeltið þeim megin var ónýtt og hliðarklæðningin rifin frá, áðurnefndur spegill lá á gólfinu, mælaborðið hafði einhvern veginn gengið til svo allt var skakkt.
Áhugavert og allt skoðað í krók og kring.
Og mikið ósköp vorum við allar fegnar að mamma þeirra slapp ómeidd.
"Það er ekkert hægt að fá nýja mömmu!" sagði Margrét með áhersluþunga.
"Nei, það er bara ein Hanna Katrín Friðriksson" sagði Elísabet.
Svo sannarlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.4.2008 | 12:03
Flatt
Á dögunum horfði ég á Vefinn hennar Karlottu með systrum. Við höfum ekki horft á þá mynd lengi, lengi.
Þegar aðeins 5 mínútur voru liðnar af myndinni rifjaðist upp fyrir mér hvers vegna hún fór svona í taugarnar á mér á sínum tíma. Þetta er skemmtileg mynd og talsetningin er stórfín, en svo er í henni sögumaður, sem ég get ekki ímyndað mér að sé leikaramenntaður. Ég veit ekkert hver þetta er, en upplesturinn er svo skelfilega flatur að hann skemmir myndina. Ef sögumaðurinn væri hlýr, notalegur og nálægt, læsi glaðlega þar sem það ætti við og af samhygð þar sem það ætti við, þá væri myndin öll önnur. Það vantar einhvern Rúrik.
Ef ég horfði á þessa mynd aftur ætla ég að prófa ensku talsetninguna. Ætli Sam Shepard sé svona flatur?
Takk annars, þið sem leggið áherslu á að talsetja myndir fyrir kríli. Það er bráðnauðsynlegt og ekki vil ég vera vanþakklát. En það þarf að vanda allt verkið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 09:06
Í kafi
Sunnudagurinn var ekki síðri en laugardagurinn.
Við drifum okkur í sund um hádegisbil. Elísabet var harðákveðin í að æfa sig að kafa. Hún ætlaði ekki í fleiri sundtíma með bekknum fyrr en búið væri að redda þessu smáatriði.
Þegar við lögðum af stað í sundið birtist Tara við útidyrnar og var snarlega kippt með. Við fórum í Árbæjarlaugina, enda er hún alltaf svo snyrtileg og fín. Við hröktumst úr Laugardalslauginni á sínum tíma vegna þess að við höfðum ekki húmor fyrir takmörkuðum þrifum í búningsklefa og sturtum, en það er nú önnur saga.
Þegar við komum í laugina fóru Elísabet og Kata afsíðis að æfa köfun. Ég átti að hafa ofan af fyrir Margréti og Töru. Þær skemmtu sér konunglega við síendurteknar drápstilraunir, héldu mér niðri, drógu mig aftur og aftur undir beljandi foss, kitluðu mig svo ég fór í keng undir yfirborðið og saup hveljur um leið.... Ó, sú yndislega skemmtan saklausra barnanna......(arg!)
Til allrar hamingju var Elísabet mjög snögg að æfa sig. Hún var allt í einu farin að kafa eftir skáplyklum á botninum, þessi krakki sem helst aldrei hefur viljað fá vatnsdropa framan í sig. Merkilegt hvernig hún gerir hlutina. Hún er oftast skrefi á eftir systur sinni, fór að ganga seinna, lærði að hjóla seinna, var seinni til að lesa og Margrét var löngu farin að kafa án þess að kippa sér upp við það. En svo ákveður Elísabet sig allt í einu, einbeitir sér að fyrirliggjandi verkefni smá tíma og stendur þá allt í einu jafnfætis systur sinni. Gaman að sjá svona ólíka nálgun.
Við vorum töluvert lengi í lauginni, eða þar til stelpurnar viðurkenndu að þær væru mjög svangar. Þær heimtuðu alvöru sunnudagsbröns, svo við brunuðum heim og þær tróðu sig út af spæleggjum og pönnsum. Það var eina skiptið þann daginn sem sljákkaði aðeins í þeim, þær voru of uppteknar við að borða til að koma upp orði.
Þær þrjár fóru svo út í garð, tóku hvern smáhlut út úr kofanum og ráðskuðust hver með aðra þar til við fórum í heimsókn til Afa Torben og Ömmu Möggu. Þá loks skiluðum við Töru. Eftir heimsóknina fóru systur á fótboltaæfingu, svo heim í kvöldmat og þær komust varla inn í rúm, svo lúnar voru þær eftir daginn, krúttin.
Í dag er leikfimi í skólanum, svo fara þær á fimleikaæfingu síðdegis og eru búnar að taka af okkur hátíðlegt loforð um sund eftir það. Þetta er farið að hljóma eins og sovéskt uppeldi íþróttamanna! En Elísabet ætlar að æfa köfun einu sinni enn, áður en kemur að skólasundi. Margrét vill gjarnan læra að standa á höndum í vatninu. Það verður nóg að gera hjá Kötu. Ætli ég fái frið í heita pottinum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar