Færsluflokkur: Bloggar
6.4.2008 | 14:52
Trjálækningar
Það er komið vor. Enginn vafi.
Systur fóru á gítaræfingu kl. 10 í gærmorgun, komu svo heim og beint til Töru. Marta María var fjarri góðu gamni, einhver hiti í stelpunni og hún hélt sig heima.
Amma Dedda og Afi Ís komu í kaffisopa í hádeginu (og afi að sjálfsögðu með tvo súkkulaðipakka í vasanum!) og þær gáfu sér tíma til að borða snúð, en voru svo roknar út aftur.
Við heyrðum í þeim allt í kringum húsið, en allt í einu komu þær hlaupandi inn, andstuttar af mikilvægi stundarinnar. Þær URÐU að fá læknisdótið. STRAX!!
Kata fann læknisdótið á meðan Margrét tæmdi plástraskúffuna á baðinu. Mörg, mörg sár, tautaði hún og fyllti alla vasa af plástrum.
Sárin reyndust vera á stóra trénu fyrir framan hús. Þær höfðu rekið augun í hefti, sem sátu í berkinum. Líklega hefur einhver einhvern tímann sett tilkynningu á tréð. "Úðað með eitri" eða eitthvað slíkt. Svo hefur tilkynningin horfið, en heftið setið eftir.
Þær dunduðu sér lengi við að plokka heftin úr trénu með flísatöng og settu svo plástur á hvert sár. Tréð var orðið skrautlegt fyrir rest, með 8 plástra. Ariel-plástra, Incredibles-plástra, Nemo-plástra og venjulega, brúna heftiplástra.
Þegar ég ætlaði að mynda plástratréð seinna um daginn voru allir plástrar horfnir. Ég spurði Margréti hvernig stæði á því.
"Trénu var batnað!" sagði hún, yfir sig hneyksluð á þeirri vantrú á lækningamætti þeirra, sem fólst í þessari kjánalegu spurningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.4.2008 | 17:42
Kvörn og kvarnir í haus
Kata gerði alvarlega athugasemd við síðustu færslu. Það var nefnilega alls ekki ég sem þurfti að beita sjálfa mig hörðu til að kalla á stelpur á gítaræfingu. Kata þurfti að beita mig hörðu.
Hún var enn í vinnunni þegar ég fór að senda henni aum sms skilaboð. "Tími ekki að kalla á stelpur heim f gítaræfingu" voru þau fyrstu.
"Verða að æfa núna" svaraði hún.
"Eru að leika úti með Töru. Gott veður" skrifaði ég.
"Eru að fara í matarboð. VERÐA að æfa núna" skrifaði hún.
Svona hélt þetta áfram lengi, lengi, en Kata gaf sig ekki, enda miklu skynsamari en ég. Svo gítaræfingar gærdagsins fóru loks fram samkvæmt beinni tilskipan úr heilbrigðisráðuneytinu.
Ég verð að viðurkenna að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég fegra minn hlut á þessu bloggi. Man einhver eftir afmælistertunni, þessari þriggja hæða? Sem var með innbyggðum stillönsum, svo hún færi ekki öll í klessu? Eins konar burðargrind úr plexigleri?
Kakan var vissulega bökuð og burðargrindin sett í hana. Það var allt saman satt og rétt. Ég hef hins vegar ekki vandalausum frá framhaldinu, af því að þar dregur verulega úr hetjumynd hinnar hugprúðu húsmóður.
Þannig var, að afgangurinn af kökunni rataði í ísskápinn og var þar þangað til tími var kominn til að henda þessum sorglegu leifum. Þá tók ég kökuna, skúbbaði henni niður í sorpkvörnina í eldhúsvaskinum og kveikti svo á kvörninni. Óhljóðin voru ægileg þegar kvörnin reyndi að vinna á helv.... plexíglerstöngunum, sem ég var löngu, löngu búin að gleyma. Og örsmáar og lífshættulegar agnir úr plexíglerinu þeyttust upp úr kvörninni og höfðu næstum gengið frá gleymnu húsmóðurinni.
Kvörnin virkar ekki. Ég tók hana úr sambandi, reyndi að taka hana í sundur og þar við situr. Held ég þurfi að bjóða Örnu Garðars í heimsókn, hún reddaði okkur úti í Kaliforníu þegar Kata reyndi að kæfa þarlenda kvörn með einhverju undarlegu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.4.2008 | 00:20
Pönk og diskó
Systur sáust varla heima hjá sér í dag. Thelma Törumamma á númer 5 tók þær með þeim mæðgum heim eftir skólann. Ég sá til þeirra þar úti í garði og þurfti að beita mig hörðu til að kalla þær heim í gítaræfingu. Ég sendi Thelmu sms, bað hana að senda E fyrst yfir.
Örstuttu síðar hringdi síminn. "Halló, þetta er Elísabet". Og svo hófust samningaviðræður. Mátti hún ekki æfa seinna? Nei, ekki hægt, hún var að fara í matarboð. Eða vildi hún kannski þurfa að koma snemma heim úr því til að æfa? Það vildi hún auðvitað ekki, en henni fannst frábær hugmynd að æfa bara í fyrramálið, fyrir gítartímann. Það fannst mér ekki, enda búið að færa gítartímann fram til klukkan 10 og ekki nennti ég að setja mig í æfingastellingar fyrir allar aldir. Eða kalla hana snemma heim út matarboðinu, svo hún gæti farið tímanlega að sofa vegna gítaræfingar í fyrramálið. "Allt í lagi, ég kem" dæsti hún og kom hlaupandi stuttu síðar.
Gítaræfingarnar voru mesta fjör, eins og venjulega. Þær systur lýjast nú dálítið fljótt á að einbeita sér að gripunum, en þá pönkumst við bara dálítið, spilum hratt og hátt og orgum textana. Þeim finnst það alltaf jafn fyndið og eftir slíka útrás eru þær til í að halda áfram að æfa í fullri alvöru.
Elísbet lauk æfingu, Margrét kom skokkandi yfir og Tara með. Margrét æfði sig og fannst nú ekkert verra að hafa Töru sem áhorfanda.
Svo kom Marta María að sækja vinkonur sínar. Hún var búin að bjóða þeim hátíðlega í kvöldverð á númer 2. Þær fóru héðan út yfir sig spenntar, með nýju sólgleraugun á nefinu. Og Tara rogaðist með stóru, upplýstu diskó-kúluna sína í fanginu. Þetta átti nefnilega að vera þannig partý.
Við Kata vorum hér heima, aleinar, frá klukkan 6 til hálf tíu. Ótrúleg upplifun. Systur komu svo heim í fylgd Elínar Sjafnar, stórusystur á númer 2. Þær voru sofnaðar nokkrum mínútum síðar.
Eintóm hamingja hjá Logalandsgenginu í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.4.2008 | 12:24
Páskastelpur
Systur máluðu egg á páskunum. Þær voru alsælar -alveg þar til ég sagði þeim að myndbandið færi inn á bloggið!
Svo reynist þetta blessaða myndband of stórt til að bloggið vilji þýðast það, svo þær fá gálgafrest á meðan ég finn út úr því. Við notum bara myndir á meðan, aðra af Elísabetu og mér, þar sem mér sýnist hún undirbúa að mála á mig og hina af Kötu og stelpunum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.4.2008 | 09:54
Skemmtun
Bekkjarskemmtunin var hin besta skemmtun.
Krakkarnir í 6 ára bekk fóru yfir Sköpunarsöguna, hvorki meira né minna. Þau voru búin að gera flotta veggmynd og svo lásu þau, sungu, spiluðu, stigu fram með myndir af dýrum, fuglum, fiskum og blómum. Sætust, öll sömul.
Elísabet bauð fólk velkomið og tókst það ágætlega. Hún var auðvitað dálítið stressuð, það tekur á að lesa upp í míkrófón
Bekkjarskemmtunin féll nú eiginlega í skuggann af endurkomu Töru klíkufélaga til landsins. Hún bankaði upp á um leið og systur komu úr skólanum og það urðu miklir fagnaðarfundir. Elísabet, sem áður hafði sagt að henni væri illt í bragðlaukunum af söknuði, var nýbúin að segja mér að henni væri líka illt í maganum og öllum munninum af söknuði, svo þetta mátti ekki tæpara standa.
Tara gaf systrum ótrúlega flott sólgleraugu. Hún á sjálf svoleiðis og var með ein í farteskinu fyrir Mörtu Maríu líka. Það er því ljóst að Logalandsgengið verður ótrúlega kúl í sumar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.4.2008 | 11:02
Broddgöltur
Síðdegis er bekkjarskemmtun hjá systrum í Fossvogsskóla. Þær ætla að troða upp ásamt bekkjarfélögunum, alla vega lesa upp. Þær eru mjög spenntar og mæður ekki síður.
Í gærkvöldi hófst undirbúningurinn. Þær fóru í bað eftir fimleikana og svo sátum við Kata sveittar við að setja ótal litlar fléttur í þær. Flétturnar sofnuðu þær sælar með og verða með í dag, en fyrir skemmtunina verða þær teknar úr og liðirnir fá að njóta sín. Vonandi sofna þær ekki í miðjum klíðum, hárgreiðslan tók allt of langan tíma og þær sofnuðu ekki fyrr en rúmlega 9.
Við eigum að koma með hollar og góðar veitingar á hlaðborð og systur eru ákveðnar í að hjálpa mér við undirbúninginn. Við eigum því eftir að eyða síðdeginu við að búa til ávaxta-broddgölt.
Á morgun ætla þær að taka með sér heitt kakó í brúsa, þá fer bekkurinn þeirra nefnilega í leiðangur um dalinn og nestið verður borðað úti. Þær ætla að sjálfsögðu að stýra nestisgerðinni, eins og öðru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.4.2008 | 09:15
Breiðholts-eitthvað
Systur fóru í þriðja sundtímann í gær. Eða í raun í annan tímann, því sá fyrsti var bara kynnisferð á staðinn.
Ég er alveg hætt að stressa mig á sundferðunum, enda kom í ljós að stress mitt var á misskilningi byggt. Mér fannst ægileg tilhugsun að vita að krúttunum í stórum búningaklefunum í Breiðholtslauginni og sá þær í anda týnast úti í laug.
Um síðustu helgi vorum við í sunnudagsbíltúr og þá stýrði Kata okkur að gamla skólanum sínum, Breiðholtsskóla. Við hlið hans er lítil og krúttleg bygging. "Þarna er sundlaugin sem þið farið í, stelpur," sagði Kata og systur tóku undir það, einmitt þarna væru þær í skólasundinu.
Í sundlaug Breiðholtsskóla, ekki Breiðholtslaug.
Ef ég færi einhvern tímann ótilneydd í sund, þá hefði ég kannski vitað þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.4.2008 | 13:13
Sveppahaus
Eftir allt Vespu-talið á heimilinu undanfarið og áhyggjur dætranna af því að geta ekki brunað með mér um götur á tryllitækinu, þá áttuðum við okkur allt í einu á því í gær, að Vespa er aldeilis óþörf.
Við eigum allar reiðhjól.
Ég sé fram á miklu, miklu erfiðara sumar en á meðan Vespu-draumurinn var á lífi.
Elísabet er harðákveðin að vera mjög dugleg að hjóla með mér í sumar. Hún er líka búin að ná fullkomnun í hjólreiðalistinni og enginn eftirbátur systur sinnar lengur. Svo fengu þær þessa fínu hjálma í afmælisgjöf, svo þær eru færar í flestan sjó.
Ég ætti kannski að biðja mömmu og pabba að gefa mér nýjan hjálm? Það er svosem ekkert að hjálminum mínum, fyrir utan það litla smáatriði að þegar ég er með hann lít ég út eins og eitthvað sem á ekki að vera á ferðinni innan um almennilegt fólk. Lítil börn gráta, háaldrað fólk lítur undan því þótt það hafi séð ýmislegt á langri ævi þá er þessi sjón skelfilegri en það allt saman.
Af hverju þurfa þessir hjálmar að vera eins og ofvaxnir sveppir?
Á Vespu hefði ég getað verið með lokaðan hjálm með reyklituðu gleri. Það hefði verið kúl. Svoleiðis hjálmur á reiðhjóli er hins vegar ekki til að bæta mannorðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.4.2008 | 10:07
Leikur
Eftir fótboltaæfinguna í gær fóru systur beint heim, enda ætluðu þær sko að leika við Mörtu Maríu, sem hafði verið svo ósvífin að bregða sér af bæ í heila þrjá sólarhringa.
Þegar við ókum inn í Logalandið varð ég að setja þær úr við nr. 2. Sem er nú dálíitið fyndið, af því að við eigum heima á nr. 8, en þeim finnst alltaf óskaplega spennandi að fá að fara úr bílnum í heimreiðinni hjá Mörtu.
Ég sá þær ekki nema í mýflugumynd næstu tvær klukkustundirnar, heyrði bara hrópin, köllin og hamingjuskrækina í þeim og bekkjarsystrum hér og þar um hverfið.
Þær komu þrjár í kvöldmatinn, Elísabet, Margrét og Marta María, enda höfðu þær systur boðið Mörtu hátíðlega að borða hér. Allt í sóma með það eins og fyrri daginn. Þær fengu svo aðeins að leika sér eftir matinn, þótt allar ættu eftir að lesa fyrir skólann. Þær bara URÐU að fá að vera dálítið saman eftir aðskilnaðinn mikla. Örfáum mínútum síðar voru allar komnar í glæsikjóla, Marta og Margrét dönsuðu ballett af innlifun og Elísabet spilaði tónlist af geisladisk undir og bætti við daufum vindhljóðum úr eigin barka, til að auka á dramatíkina.
Svo hringdi dyrabjallan. Margrét áttaði sig strax á að þar væri Óli pabbi kominn að sækja Mörtu Maríu. Hún hljóp á harðaspani til dyra og um leið og Óli steig inn fyrir sagði hún: "Má ekki bjóða þér kaffisopa?" Óli þáði sopann og Margrét glotti ógurlega. Henni hafði tekist ætlunarverkið, að kaupa þeim vinkonunum nokkrar mínútur í viðbót.
Þegar Marta var farin lásu þær báðar í skólabókunum sínum. Þær eru orðnar alveg fluglæsar, þessar stelpur. Ég öfunda þær af öllum frábæru bókunum sem þær eiga eftir að lesa.
Elísabet fór inn á baðherbergi eftir lesturinn, en allt í einu heyrðist skaðræðisöskur. Snöggt og sársaukafullt vein og ljóst að barnið var alveg við það að fara að gráta af skelfingu. Svo kom hún hlaupandi út af baðinu og augum stóðu á stilkum af skelfingu. "Það er ógeðsleg kónguló í vaskinum," hrópaði hún um leið og hún hljóp framhjá mér.
Óttaleg hystería er þetta í barninu, hugsaði ég með mér og tautaði örugglega eitthvað upphátt um það líka, enda ekki einleikið hvernig hún lét.
Um leið og ég kom inn á bað og fór að svipast um eftir kvikindinu hrópaði Elísabet: "1.apríl!"
Ég var löngu búin að gleyma þessu gabb-degi og kolféll fyrir platinu. Leikrænir tilburðir barnsins réðu þar mestu, mig grunaði ekki að hún væri að plata þegar hún æddi framhjá mér, stóreyg af skelfingu.
Elísabet hefur oft nefnt að hana langi til að verða leikari. Ég held að maður verði að fara að skoða þann möguleika í alvöru, svei mér þá!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.4.2008 | 00:32
Bannað að ganga á grasinu!
Mér brá í brún þegar ég kom á Austurvöll á slaginu fjögur. Þar var varla nokkur hræða, svei mér þá. Alla vega ekki miðað við mörg, mörg þúsund Íslendinga, sem ég bjóst við.
Nokkrir jeppar komust að Austurvelli og stoppuðu fyrir framan Alþingishúsið, en svo lokaði lögreglan Skólabrú. Aðal fjörið var um tíma í Lækjargötu, þar sem stóru, stóru trukkarnir ólmuðust. Þeir komu sé svo fyrir í nálægum götum, svo flautukórinn varð flottur. Það rættist því úr þessu.
Samt hefðu nú fleiri mátt gera sér ferð niður í bæ. Ég lagði bílnum við Hljómskálagarðinn, ég var svo viss um að það yrði umferðarstappa á Menningarnæturmælikvarða og varð að komast til baka að ná í systur á fótboltaæfingu. Ætlaði sko ekki að taka neina sénsa.
Mér fannst krúttlegt að þessir fáu mótmælendur, sem voru á Austurvelli klukkan fjögur, stigu ekki út á grasið. Löggan bannaði það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar