7.5.2009 | 22:04
Bóndinn og búskapurinn
Pistill í Mbl. 5/5 2009
Ég var við sauðburð um helgina. Búið er reyndar ekki stórt í samanburði við stærstu fjárbýli, en nokkrar ær tómstundabóndans bera að vori, rétt eins og hinar fjölmörgu ær þeirra sem stórtækari eru í búskapnum.
Fyrst til að bera, eftir að ég renndi í hlað, var ær nokkur, sem hafði líka borið í fyrra. Þá gekk burðurinn hins vegar seint og illa og lambið lifði átökin ekki af.
Að þessu sinni gekk allt að óskum, að vísu með nokkrum stuðningi eigandans. Lambið kom fljótt og vel í heiminn og þótt ekkert lífsmark virtist með því í fyrstu fór það fljótlega að bæra á sér. Ærin virtist hins vegar ekki átta sig á hvað hafði gerst. Hún ætlaði bara að ganga í burtu og skilja lítið, skjálfandi lambið eftir í stíunni. Gaf sig ekkert að því, lét bara eins og ekkert hefði í skorist og reyndi að fela sig í fjárhópnum.
Þá tók sauðfjárbóndinn, sú röskleikakona, til sinna ráða. Hún veit sem er, að það dugar ekki að bíða endalaust og sjá til. Lömb spjara sig ekki, nýkomin í grimman heiminn, án aðstoðar. Það þýðir ekki að líta undan og vonast til að ástandið skáni af sjálfu sér. Og þarna var svo sannarlega tími aðgerða. Hún dró ána að lambinu og lét hana byrja að kara afkvæmið. Það gekk fljótt og vel, loksins þegar ærin kom sér að verki. Og lambið gat fljótlega staðið á eigin fótum.
Í þessari sömu stíu var gimbur, sem skar sig frá af því sem hún var lítil og rýr. Hún kom í heiminn síðasta haust, þvert á allar venjur og spár. Frænka sauðfjárbóndans fékk að velja nafnið og kaus að láta hana heita Kreppu. Kreppa litla hefur dafnað og stækkað í vetur, þótt enn eigi hún töluvert í land að ná hinum kindunum. Hún er búin að koma sér vel fyrir í hópnum og er ekkert á förum.
Þeir sem eignast afkvæmi vita flestir að þeim verður að sinna. Og þeir sem ráða yfir búi vita að þar eru mörg verkin, sem mega ekki bíða. Þessi regla gildir raunar um öll bú, manna sem dýra.
Þrátt fyrir þessi alþekktu sannindi eru þeir til í mannheimum, sem halda að málin reddist á meðan þeir sitja á spjalli og ræða hvernig heimurinn getur batnað. Einhvern tímann seinna. Þeir halda að þeir geti leyft sér að rabba um önnur og stærri fjárhús og velta vöngum yfir hvort ráðlegt sé að láta litla búið sitt undir væng þeirra stærri. Á meðan gleyma þeir að huga að öllum verkunum, sem þarf að vinna til að búið þeirra spjari sig. Þeir tala um hvað sé í burðarliðnum, en gera ekkert.
Lífið heldur áfram, hjá öllum öðrum en þeim sem sitja slímsetur á fundum og trúa því að ekkert liggi á. Ef aðgerðaleysið er gagnrýnt er svarað snúðugt, að gefið hafi verið á garðann fyrir löngu og undarlegt hljóti að teljast ef sú fæða dugi ekki dýrunum.
Kreppa litla heldur hins vegar áfram að vaxa og dafna, rétt eins og stóra systir hennar í mannheimum. Hún veit að bóndinn hlúir að henni.
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Til hamingju með lambið.
hannes (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 09:38
Þessi pistill er einn af þínum allra bestu. Takk fyrir.
Katrín Frímannsdóttir (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 02:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.