Hætt á Mogga

Ég hætti á Morgunblaðinu í dag. Þennan póst sendi ég samstarfsfólki mínu:

 Kæru vinir.

Ég er búin að segja upp starfi mínu hjá Morgunblaðinu og þetta er síðasti dagurinn minn hér.

Mér þykir vissulega leitt að yfirgefa allt mitt góða samstarfsfólk. Ég ætla ekkert að rifja upp að fyrsta árið mitt á Mogga skrifaði ég allar fréttir á ritvél; kornungar konur halda slíku ekki á lofti. Ég hef svosem komið og farið, til dæmis brugðið mér af bæ í laganám og bókaskrif, en alltaf skilað mér heim aftur.

Mér hefur þótt sérstaklega gaman að hafa Sunnudagsblaðið á minni könnu. Það er góð tilfinning að bera ábyrgð á því að lesendur Morgunblaðsins fái hæfilegan skammt af skemmtun og fróðleik um helgar! Ég hef auðvitað haft á einvala liði að skipa og allir verið boðnir og búnir að leggja sunnudagsritstjórninni lið. Ég er viss um að svo verður áfram, þótt ég haldi ekki lengur um taumana.

Núna hafa aðstæður breyst og þess vegna hef ég sagt upp starfinu sem yfirmaður á ritstjórn.

Ég hætti að sjálfsögðu ekki að lesa Moggann okkar. Ég veit nefnilega, hversu frábær hópur vinnur hér á hverjum degi við að rita sem bestar og sannastar fréttir af atburðum líðandi stundar, á hvaða sviði mannlífsins sem er. Ég vil ekki missa af Sunnudagsmogganum, þar sem mitt nánasta samstarfsfólk skrifar áhugaverðar greinar og viðtöl allar vikur ársins. Og allar upplýsingarnar, sem þið veitið lesendum á hverjum degi! Ég vil fá að njóta þeirra áfram.

Ég veit að þið munið halda áfram á sömu braut. Ekki láta á ykkur fá, þótt umræðan í samfélaginu sé brengluð þessa dagana og fólk, sem veit betur, láti eins og Morgunblaðið sé ekki trúverðugt. Auðvitað er það trúverðugt, svo lengi sem þið haldið uppi merki þess með góðri blaðamennsku.

Þið hafið aldrei sýnt styrk blaðsins eins vel og á liðnu ári.

Þið eruð Morgunblaðið og þess vegna kveð ég án nokkus kvíða fyrir framtíð blaðsins.

Megi ykkur öllum farnast sem allra best.

Ragnhildur Sverrisdóttir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Hvaða aðstæður hafa breyst Ragnhildur ? Af hverju bara ekki að upplýsa okkur ?

Þetta eru viðsjáverðir tímar, og um að gera að hafa allt uppi á borðinu.

hilmar jónsson, 30.9.2009 kl. 23:18

2 identicon

Gangi þér vel, frænka. Það eru nú margar blaðsíður Moggans sem ég sakna ekki. Það á ekki við þín skrif eða þeirra sem nú hverfa frá blaðinu. Frekar þeirra sem komnir eru.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 23:28

3 Smámynd: Garún

Sunnudagsmogginn er dásamlegasta blað í heimi.  Það eina sem fær úr náttbuxunum á Sunnudag er sú staðreynd að ég þarf að keyra inní Keflavík til að sækja mér Sunnudagskrossgátuna og ég ætla mér að halda því áfram!  En gangi þér vel í því sem þú tekur þér fyrir hendur á  næstunni!  p.s Ekki hverfa héðan samt! 

Garún, 1.10.2009 kl. 09:42

4 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Farnist þér líka sem best mín kæra.  Slæmt fyrir Mogga að missa þig núna.  En -eins og okkur var kennt þar fyrir margt löngu- þá er víst enginn ómissandi.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 1.10.2009 kl. 15:09

5 identicon

Ég syng eins og í lagi Ómars Ragnarssonar um Botnínu:  en af hverju varstu að trúlofast henni?  Útleggst:  AF hverju hættir þú?

Starfið skemmtilegt og blaðið gott.  Hvað viltu meira?  Spyr lífsreynd kona, sem starir á heiminn með spurn í augum. 

En hvað sem nú tekur við..vegni þér vel sem og þinni fjölskyldu.

Kær kveðja.

Auður M 

Auður M (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 19:52

6 identicon

Blessuð og takk fyrir öll árin Ragnhildur, var áskrifandi frá 1986 til dagsins sem DAO formaður byrtist.

Þessi ákvörðun verður þér örugglega til gæfu. Lifðu heil.

Gestur Pálsson (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 21:41

7 identicon

Bara  æði að fólk hefur efni á að segja upp starfi í dag. Vildi óska að ég hefði haft það val.

Skil nú samt ekki hvað var málið þarna, gott blað og samstarfsfólk. Davíð skrifar svo ritstjóra grein sem enginn les hvort eð er.

Hrönn (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 21:07

8 identicon

Var einmitt að hugsa til þín um daginn og hvort þú værir enn á Mogganum. Ég er í hópi þeirra þúsunda sem sagði blaðinu upp um daginn og sakna hans sárlega. Tek því einn dag í einu eins og Alkarnir :-)

En þið hafið þá kannski tíma til að hitta okkur Dóru í hádeginu einhvern daginn? Sendu endilega mail... hef hvorki þinn meil né Hönnu Kötu -

Anna G. Ivarsdóttir (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 18:57

9 identicon

Ég óska þér góðs gengis í hverju sem þú tekur þér fyrir hendur. Ég þakka einnig stutt en ánægjuleg kynni á Morgunblaðinu.

arnþór Helgason (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 785992

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband