Hætt á Mogga

Ég hætti á Morgunblaðinu í dag. Þennan póst sendi ég samstarfsfólki mínu:

 Kæru vinir.

Ég er búin að segja upp starfi mínu hjá Morgunblaðinu og þetta er síðasti dagurinn minn hér.

Mér þykir vissulega leitt að yfirgefa allt mitt góða samstarfsfólk. Ég ætla ekkert að rifja upp að fyrsta árið mitt á Mogga skrifaði ég allar fréttir á ritvél; kornungar konur halda slíku ekki á lofti. Ég hef svosem komið og farið, til dæmis brugðið mér af bæ í laganám og bókaskrif, en alltaf skilað mér heim aftur.

Mér hefur þótt sérstaklega gaman að hafa Sunnudagsblaðið á minni könnu. Það er góð tilfinning að bera ábyrgð á því að lesendur Morgunblaðsins fái hæfilegan skammt af skemmtun og fróðleik um helgar! Ég hef auðvitað haft á einvala liði að skipa og allir verið boðnir og búnir að leggja sunnudagsritstjórninni lið. Ég er viss um að svo verður áfram, þótt ég haldi ekki lengur um taumana.

Núna hafa aðstæður breyst og þess vegna hef ég sagt upp starfinu sem yfirmaður á ritstjórn.

Ég hætti að sjálfsögðu ekki að lesa Moggann okkar. Ég veit nefnilega, hversu frábær hópur vinnur hér á hverjum degi við að rita sem bestar og sannastar fréttir af atburðum líðandi stundar, á hvaða sviði mannlífsins sem er. Ég vil ekki missa af Sunnudagsmogganum, þar sem mitt nánasta samstarfsfólk skrifar áhugaverðar greinar og viðtöl allar vikur ársins. Og allar upplýsingarnar, sem þið veitið lesendum á hverjum degi! Ég vil fá að njóta þeirra áfram.

Ég veit að þið munið halda áfram á sömu braut. Ekki láta á ykkur fá, þótt umræðan í samfélaginu sé brengluð þessa dagana og fólk, sem veit betur, láti eins og Morgunblaðið sé ekki trúverðugt. Auðvitað er það trúverðugt, svo lengi sem þið haldið uppi merki þess með góðri blaðamennsku.

Þið hafið aldrei sýnt styrk blaðsins eins vel og á liðnu ári.

Þið eruð Morgunblaðið og þess vegna kveð ég án nokkus kvíða fyrir framtíð blaðsins.

Megi ykkur öllum farnast sem allra best.

Ragnhildur Sverrisdóttir.


Fínu fötin

Þegar Mogginn varð 95 ára í fyrra voru gerðir bolir. Svartir með hvítu letri og hvítir með svörtu. Ég á einn af hvorri gerð. Framan á bolunum er Íslandsmynd, en landið er myndað úr fyrirsögnum úr Mogga sl. 95 ár.

Systrum finnst mjög gaman að lesa á bolina og vilja fá sögurnar á bakvið fyrirsagnirnar. Sumt er einfalt, t.d. stendur "Eldgos á Heimaey" þar sem Vestmannaeyjar eru á kortinu. Annað er töluvert snúnara, "Kennedy myrtur í Dallas" og "Sóttin mikla".  En þær geta dundað sér lengi við að lesa framan á mig þegar ég bregð mér í svona bol heima við.

Í siðustu viku fór Kata með þær í bæinn að kaupa afmælisgjöf fyrir mig. Hún ætlaði að finna á mig einhverja flík. Það fannst þeim systrum alveg fáránleg hugmynd: "Hún á TVO Moggaboli!" sögðu þær.

Flottara gerist það víst ekki.


Bumbubað

Elísabet í fótabaði: Mamma, ég er búin að þvo mér svo afskaplega vel og lengi að ég er eiginlega orðin skítug aftur.

Mamma: Nei, gullið mitt, þetta virkar nú ekki þannig!

Elísabet: Jæja þá, en ég er búin að þvo mér svo lengi að ég er eiginlega orðin feit!

Mamma: Nei, heyrðu mig nú Elísabet.

Elísabet: Æ mamma, þetta er orðatiltæki sem ég var að búa til. Ég hallaði mér svo mikið fram við þvottinn að ég fékk bumbu :)


Víkingar

Við skólabyrjun þurfti að taka til í hirslum með skóladóti.

Við Kata flettum vinnumöppu Margrétar frá síðasta vori. Þar eru meðal annars myndir af torfbæjum, víkingum og þjóðbúningum.

Margrét er afskaplega nákvæmur teiknari. Á einni myndinni eru nokkrir víkingar um borð í skipi sínu, hrista vopn sín og láta ófriðlega.

Það dregur hins vegar dálítið úr ógninni, að allir víkingarnir eru í röndóttum fötum, svörtum og rauðum.

Eins og Margrét klæðist sjálf í fótboltanum, af því að hún er Víkingur LoL


Knattspyrna og kvendómarar

Pistill í Mbl. 26. ágúst 2009 

 

"Mér fannst við ekki spila nógu vel í seinni hálfleiknum og svo féll allt þeirra megin í dómgæslunni. Það má vel endurskoða það að vera með kvendómara í svona úrslitakeppni. Fullt af skrítnum atriðum féll Frökkunum í hag en svona er þetta bara.“

Þessi ummæli voru höfðu eftir einni af „stelpunum okkar“, Hólmfríði Magnúsdóttur, í Morgunblaðinu á mánudag. Hún var sem sagt ósátt við dómgæsluna í fyrsta leik íslenska liðsins í Evrópukeppninni í Finnlandi og var raunar ekki ein um það. Og ástæða slakrar dómgæslu skín í gegn: Dómarinn var kona sem og aðstoðardómararnir tveir.

Hvernig landsliðskonu í knattspyrnu dettur í hug að láta svona út úr sér er með miklum ólíkindum. Hólmfríður Magnúsdóttur nýtur þess að vera fastur leikmaður í liðinu sem á hug og hjarta þjóðarinnar um þessar mundir. Liðinu sem hefur náð miklu betri árangri en karlalandsliðið hefur nokkru sinni náð og hefur nú náð þeim mikla áfanga að keppa í úrslitakeppni stórmóts.

Árangur stelpnanna okkar hefur orðið til þess að allar úrtöluraddir um kvennaknattspyrnu eru þagnaðar. Þær eru frábærir íþróttamenn. Þar er hin harðsækna Hólmfríður sannarlega engin undantekning og skallamarkið hennar gegn Frökkum var enn ein fjöðrin í hattinn.

Eftir að Hólmfríður lét þessi ummæli falla hafa ýmsir komið henni til varnar, til dæmis í útvarpi. Þar hefur m.a. heyrst að hún hafi í raun verið að vísa til þess að ekki væru til nógu margir reyndir kvendómarar sem réðu við stórverkefni á borð við Evrópumót.

Ef Hólmfríður er að kvarta undan reynsluleysi dómara hefur hún auðvitað fullan rétt á því, hvors kynsins sem þeir eru. Kannski er aðaldómarinn í leiknum við Frakka, Natalia Avdonchenko, reynslulaus, þótt hún sé elsti dómari keppninnar og hafi m.a. dæmt í undankeppni EM, Evrópukeppni meistaraliða, heimsmeistarakeppnum yngri liða og náð þeim árangri á síðasta ári að vera valin besti knattspyrnudómari Rússlands.

Það er hins vegar með ólíkindum að leikmaður íslenska kvennalandsliðsins skuli alhæfa um kvendómara með þeim hætti sem felst í orðum Hólmfríðar. Hefur hún ekki fengið sig fullsadda á alhæfingum um kvenfólk og fótbolta? Gerir hún sér ekki grein fyrir hversu sterk fyrirmynd hún er öllum stelpunum sem vita að stelpur geta allt? Áttar hún sig ekki á að litlu stelpurnar vita þetta vegna þess að hún, Margrét Lára, Katrínarnar, Ólína, Sara, Guðrún Sóley, Edda, Dóra María, Erna Björk, Þóra og allar hinar hafa sannað það?

Stelpurnar okkar í landsliðinu eru ein ástæða þess að á mínu heimili eru átta ára systur brennandi af fótboltaáhuga, æfa oft í viku og vilja verða eins og fyrirmyndirnar. Slíkar fyrirmyndir verða að gera sér grein fyrir að þær bera mikla ábyrgð.


Kveðja

Systur eru hjá Töru núna. Rétt í þessu fékk ég tölvupóst frá Thelmu Törumömmu, um að þar á bæ væri húslestur. Þær skiptust á að lesa þetta blogg.

Þetta er fyrir ykkur, Elisabet, Margrét og Tara LoL


Ritskoðun

Elísabet lá uppi í rúmi í kvöld og var að útskýra fyrir Kötu, að sumar hugsanir væri einfaldlega ekki hægt að hugsa.

"Ég get alveg hugsað um næstum allt. Eins og til dæmis gjafir og svoleiðis. En þegar ég ætla að reyna að hugsa um að heimurinn sé ekki til, þá er eins og öll hólfin með öllu sem hægt er að hugsa um séu opin. En ekki þetta hólf. Það er læst og Guð stendur fyrir dyrunum. Þess vegna get ég ekki hugsað um að heimurinn sé ekki til."


Klakið

Margrét fer á kostum þessa dagana, með Andrésar Andar tilvísanir á hraðbergi.

Ég var eitthvað að stríða henni fyrr í dag og þá hvessti hún á mig augun og sagði: "Þú hefðir aldrei átt að klekjast út!"

Glotti svo ógurlega. Líklega vegna þess hve henni tókst fullkomlega að slá mig út af laginu. Kona í hláturskasti stríðir engum rétt á meðan.


Fiskur

Margrét var að fara að sofa. Horfði alvarlega á mömmu sína og sagði: "Ég er með smokkfisk í auganu."

Kata áttaði sig strax: "Það heitir fjörfiskur, Margrét."


Nornin

Margrét hefur alltaf haft töluverðan áhuga á göldrum og nornum. Hún eignaðist bók með ýmsum göldrum fyrr í sumar og hefur dundað sér við að láta hluti hverfa og jafnvel systur sína svífa í lausu lofti. Alltaf þegar hún fer í grímubúning kýs hún að vera norn.

Annað áhugamál er lestur Andrés-blaða. Þar er Hexía de Trix auðvitað oft á síðum, með tilheyrandi galdra og formælingar.

Allt mættist þetta í fótboltanum á dögunum. Margrét var ævareið út í dómarann, sem henni fannst að hefði átt að dæma aukaspyrnu, þegar brotið var á leikmanni Víkings.

Þá hrópaði sú stutta: "Bölvun fylgi þér og börnum þínum!" Devil

Mömmur voru sem lamaðar eitt augnablik, en kipptu svo kappsama leikmanninum til hliðar og útskýrðu að svona nornaorðbragð væri ekki æskilegt á fótboltavellinum. Blush


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 785937

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband